Fara í efni
Listasafnið á Akureyri

Listasafnið: verk úr röð Elina Brotherus

SÖFNIN OKKAR – X
Frá Listasafninu á Akureyri
_ _ _

Akureyri.net heldur áfram að opna dyr safnanna í bænum lesendum til fróðleiks og skemmtunar. Það verður gert vikulega, á fimmtudögum.

Elina Brotherus
Portrait Series (Gelbe Musik with Sunflowers), 2016
Úr ljósmyndaseríunni The Baldessari Assignments

Elina Brotherus (f. 1972 í Finnlandi) fæst að mestu við gerð sjálfsmynda og landslagsmynda. Í verkunum má skynja sterka nálægð hennar sjálfrar, berskjaldaða og hispurslausa. Verkin einkennast af marglaga frásögnum sem sveiflast á milli kímni og trega. Í mörgum þeirra setur hún sér leikreglur og fer eftir þeim innan ramma myndavélarinnar, sem er í senn leikfélagi og sálarspegill.

Brotherus vakti snemma athygli vegna nálgunar hennar á notkun ljósmiðla til endurspeglunar á tilfinningalífinu og leikriti hins daglega lífs. Hún kannar persónulegar upplifanir, sjálfsmyndina, tímahugtakið, nærveru og fjarveru ástarinnar. Hún hélt sýninguna Leikreglur / Rules of Play / Règle du Jeu í Listasafninu á Akureyri vorið 2019 og gaf þá safninu þetta verk. Sýningin hlaut Carte blanche PMU verðlaunin og var fyrst sett upp í Centre Pompidou í París í Frakklandi 2017.

Um sýninguna sagði Brotherus: „Eftir að hafa notað sjálfa mig í myndum í 20 ár fannst mér ég hafa setið fyrir í öllum hugsanlegum stellingum. Leiðina út úr þessum botnlanga fann ég í Fluxus. Ég hóf að nota Fluxus viðburðalýsingar og aðrar ritaðar leiðbeiningar eftir listamenn sem grunn í ný verk. Ég hef útvíkkað hugmyndina á bak við lýsingarnar og leyft mér að verða fyrir áhrifum frá mismunandi listamönnum, s.s. kvikmyndagerðarmönnum, ljósmyndurum, listmálurum og ljóðskáldum. Þessi gjörningalega og eilítið absúrd aðferð hefur gert mér kleift að halda áfram að vinna með myndavélina, bæði sem ljósmyndarinn og fyrirsætan. Ég vitna í Arthur Köpcke, sem sagði: „Fólk spyr: Af hverju? Ég spyr: Af hverju ekki?“