Fara í efni
Listasafnið á Akureyri

Listasafnið býður upp á margt fyrir unga fólkið

Heiða Björk Vilhjálmsdóttir, fræðslufulltrúi á Listasafninu á Akureyri. Mynd: aðsend

Við ætlum að opna nýjar sýningar í safnfræðslurými Listasafnsins í tilefni af Barnamenningarhátíð, segir Heiða Björk Vilhjálmsdóttir, verkefnastjóri fræðslu og miðlunar í Listasafninu á Akureyri. „Þar verður til sýnis afrakstur af samstarfi við nokkra grunnskóla í vetur, en krakkar á miðstigi hafa komið í endurteknar heimsóknir á safnið og unnið svo út frá þeim heimsóknum í skólanum með myndmenntakennurum sínum.“

Það er eitt af hlutverkum Listasafnsins á Akureyri að vekja áhuga unga fólksins á svæðinu á myndlist og gera safnið okkar aðgengilegt fyrir öll. Blaðamaður Akureyri.net settist niður með Heiðu Björk og forvitnaðist um starfið í tengslum við Barnamenningarhátíð og almennt um fræðslu og samtal safnsins við unga fólkið.

Við erum alltaf að reyna að byggja upp sterkari tengsl við skólana í bænum og við viljum að skólarnir nýti safnið

Sýningarnar verða tvær, önnur verður opnuð á fyrsta degi Barnamenningarhátíðar, í dag, 1. apríl og sú seinni opnar eftir páska. „Ég vann þetta verkefni með Elínu Berglindi Skúladóttur, myndmenntakennara í Lundarskóla, og þetta er verkefni í þróun. Í fyrra var bara Lundarskóli með, en í ár höfum við bætt þremur skólum við. Krakkarnir koma, ég sýni þeim sýningarnar okkar, þau fá að gægjast baksviðs og sjá varðveislurýmin og þannig fá þau að kynnast safninu vel,“ segir Heiða Björk.

 

 

„Mér finnst krakkarnir hafa áhuga á safninu, og starfinu,“ segir hún. „Þetta er líka mjög gaman fyrir mig, að fá krakka í endurteknar heimsóknir, þá kynnist ég þeim betur en þegar þau koma bara í einstakar heimsóknir. Við erum alltaf að reyna að byggja upp sterkari tengsl við skólana í bænum og við viljum að skólarnir nýti safnið. Það er mikilvægt fyrir okkur að kynna safnið fyrir yngri kynslóðum bæjarins.“  

Sköpun bernskunnar og jóga og núvitund

Sýningin Sköpun bernskunnar 2025 er enn uppi og Heiða Björk minnir á að það er alltaf hægt að skapa eigin verk á efri hæðinni í Ketilhúsinu, og þar er veggur sem er sérstaklega ætlaður fyrir og listamenn dagsins að hengja upp afraksturinn. „Það er gaman að mæta í vinnuna á morgnana og kíkja á vegginn, það er alltaf komið eitthvað nýtt og skemmtilegt,“ segir hún. „Mig langar að bæta við að sýningin Sköpun bernskunnar er mjög mikilvæg fyrir fræðslustarf safnsins, en krakkarnir sem taka þátt koma í heimsóknir og kynnast safninu vel, auk þess að leggja sköpunarverk sín til sýningarinnar.“ 

Nýjungar í dagskrá Barnamenningarhátíðar í ár, sem verða á safninu, tengjast meðal annars andlega sviðinu. „Annarsvegar ætlar Þuríður Helga Kristjánsdóttir að vera með núvitundarviðburð 5. apríl og svo verður Arnbjörg Kristín með fjölskyldujóga 19. apríl,“ segir Heiða Björk. „Það er skemmtileg tenging þarna á milli, og það verður gaman að bjóða fólki að koma og upplifa safnið á nýjan og spennandi hátt.“ Það verður takmarkaður fjöldi á báða viðburði, þannig að Heiða Björk hvetur áhugasöm til þess að skrá sig. 

 

Fræðslurými safnsins er á þriðju hæð.

Fastir liðir í fræðslustarfi safnsins

Það eru ákveðnir fastir liðir í fræðslustarfi Listasafnsins fyrir yngri kynslóðina, en Heiða Björk minnir á að í safnfræðslurýminu, sem er salur númer 07 á þriðju hæð, sé alltaf hægt að setjast niður og skapa. „Þar reyni ég að setja upp sýningar sem ég get nýtt í fræðslu, ekki bara fyrir krakka heldur líka fullorðna. Auk þess er ég með fjölskylduleiðsögn um valdar sýningar einu sinni í mánuði, það er fastur liður. Þá er líka boðið upp á listsmiðju með, þar sem er í boði að skapa saman og fræðast í leiðinni. Einu sinni í mánuði er svo almenn leiðsögn um valdar sýningar safnsins á laugardegi,“ segir hún. 

'Allt til enda' snýr aftur í haust

„Mig langar að segja frá spennandi verkefni sem við bjóðum upp á næsta haust. Ég hef fengið styrk frá Safnasjóði til þess að halda áfram með verkefnið 'Allt til enda', en það eru listvinnustofur fyrir grunnskólanema,“ segir Heiða Björk. „Þetta verða þrjár vinnustofur, hver þeirra stendur yfir helgi. Krakkarnir fá þá tækifæri til þess að vinna með listamanni, og kynnast ferlinu sem á sér stað frá hugmynd til sýningar. Þau fá að taka þátt í öllu, fá hugmynd, vinna verkið undir leiðsögn og setja svo upp sýninguna sjálf.“

Heiða Björk heldur utan um verkefnið, en þrír listamenn sjá um að leiðbeina. Sigga Björg Sigurðardóttir stefnir á að vinna með tilviljanir og teikningu þar sem áhersla verður lögð á tilraunir með vatnsleysanleg efni, blek og vatnslit. Ýr Jóhannsdóttir skoðar heimilistextíl og hvernig hægt er að viðhalda honum í notkun með persónulegri tjáningu í einföldum textílaðferðum og Örn Alexander Ámundason ætlar að skoða sögu gjörningalistarinnar og fremja með börnunum gjörning. „Hver smiðja verður fyrir mismunandi aldur og svo verður afraksturinn sýndur í safninu,“ segir Heiða Björk. „Þessar vinnustofur hafa verið vel sóttar og yfirleitt myndast biðlistar.“

 

Á efri hæð í Ketilhúsinu er þessi aðstaða til föndur og sköpunar alltaf opin á opnunartíma safnsins.