Fara í efni
Listasafnið á Akureyri

Listasafnið: Friberg og Myrkramörk frá 1978

SÖFNIN OKKAR – XLII

Frá Listasafninu á Akureyri_ _ _

Akureyri.net heldur áfram að opna dyr safnanna í bænum lesendum til fróðleiks og skemmtunar. Það er gert vikulega, á fimmtudögum.

Roj Friberg
Myrkramörk
1978
Blýantur, unnin með hreinsuðu bensíni á pappír

Sænski myndlistarmaðurinn Roj Friberg (1934-2016) valdi sér ósjaldan beitta samfélagsádeilu sem viðfangsefni í verkum sínum. Einræðisógn fyrri hluta 20. aldar var honum í fersku minni og þannig talar hann eftir dauða sinn beint inn í veruleika nútíma samfélags.

Friberg nam myndlist við Listaháskólann Valand í Gautaborg og var starfandi og búsettur í Svíþjóð alla ævi. Hann varð snemma þekktur fyrir sérstöðu sína varðandi persónulegar teikningar og vinnuaðferðir, en einnig grafíkverk, skúlptúra og málverk. Í fínlegum og nákvæmum teikningum Friberg má gjarnan sjá mikla dramatík eða spennuþrungið andrúmsloft. Bókmenntir voru honum endalaus uppspretta hugmynda, en einnig návígið við sænska náttúru – skóga og vötn. Verk eftir hann má finna í fjölda listasafna á Norðurlöndunum og skúlptúrar hans sjást víða í Svíþjóð, meðal annars í anddyri leiklistardeildar Listaháskólans í Gautaborg.

Friberg hélt stóra einkasýningu á verkum sínum í Listasafninu á Akureyri 1998 og þá festi Listasafnið kaup á meðfylgjandi verki.