Fara í efni
Landsbankahúsið við Ráðhústorg

Jólaskraut úr Slippnum með mikilvægan tilgang

Starfsemi Velferðarsjóðs Eyjafjarðarsvæðis verður kynnt á Glerártorgi á morgun, laugardag, og þá hefst sala á jólaskrauti til styrktar sjóðnum, fallegri jólastjörnu sem tveir starfsmenn Glerártorgs hönnuðu og Slippurinn tók að sér að smíða.

Velferðarsjóður Eyjafjarðarsvæðis er samstarfsverkefni Hjálparstarfs kirkjunnar, Hjálpræðishersins á Akureyri, Mæðrastyrksnefndar Akureyrar og nágrennis og Rauða krossins við Eyjafjörð. Sjóðurinn aðstoðar efnaminni einstaklinga og fjölskyldur bæði fyrir jólin og á öðrum tíma árs en reynslan sýnir að eftirspurnin eftir aðstoð er mest í aðdraganda jólanna, að því er segir á vef sjóðsins.

  • Samtals fengu 474 heimili og einstaklingar jólaaðstoð árið 2022 og var það mikil fjölgun umsókna milli ára.
  • Búast má við því að enn fleiri umsóknir berist fyrir jólin þetta árið, en í reglubundnum úthlutum sjóðsins árið 2023 höfum við séð að þörfin fyrir og eftirspurn eftir aðstoð hefur stóraukist, segir á vef sjóðsins.

Hannað á Glerártorgi, framleitt í Slippnum

Í ljósi aukinnar eftirspurnar eftir aðstoð réðst stjórn Velferðarsjóðsins, í samstarfi við Glerártorg og Slippinn, í spennandi fjáröflunarverkefni, sölu á jólaskrauti til styrktar sjóðnum.

„Jólin nálgast og vonandi vekur sú tilhugsun upp gleði og tilhlökkun hjá sem flestum. Hátíð ljóss og friðar, tími notalegra samverustunda með fjölskyldu og vinum. Við vitum þó að jólin geta valdið mörgum áhyggjum af ýmsum ástæðum. Fjárhagslegir erfiðleikar geta gert fólki erfitt að halda gleðileg jól og þess vegna er mikilvægt að fólk í slíkri stöðu geti nálgast aðstoð,“ segir í tilkynningu á vef Velferðarsjóðsins.

Velferð er verkefni allra

„Þetta hefur gerst hratt og það er frábært að finna velviljann í garð sjóðsins,“ segir Herdís Helgadóttir, formaður stjórnar Velferðarsjóðs Eyjafjarðarsvæðis á vef sjóðsins. „Tíminn frá hugmynd í tilbúna vöru hefur verið ótrúlega stuttur og hér eru engin vandamál, bara lausnir! Framlag Slippsins í söfnunina er fallegt jólaskraut sem Kristín Anna Kristjánsdóttir og Elva Ýr Kristjánsdóttir, verkefnastjórar markaðsmála á Glerártorgi hönnuðu. Skrautið er úr stáli og á því eru mörg hjörtu sem öll tengjast. Þetta finnst mér falleg tilvísun í að velferð er verkefni okkar allra, eins og slagorðið okkar segir.“ Stálið sem notað er í skrautið er afgangsefni sem annars færi í endurvinnslu, til að lágmarka umhverfisáhrif verkefnisins. 

Eins og áður sagði verður viðburður á Glerártorgi á morgun, laugardag, frá kl. 13.00 til 15.00, þar sem starfsemi sjóðsins verður kynnt og sala á skrautinu hefst. Tekið er fram að takmarkað upplag sé til af skrautinu, nefnt að annað hvort sé hægt að hengja það á þar til gert styrktartré á Glerártorgi eða taka með heim. „Svo er það auðvitað líka tilvalin jólagjöf.“

Hver króna skiptir máli

Stjórn Velferðarsjóðs á Eyjafjarðarsvæðinu vill koma á framfæri innilegu þakklæti til allra þeirra sem leggja starfinu lið. Án þessa mikla velvilja í samfélaginu væri ekki hægt að styrkja efnaminni heimili á svæðinu með þeim hætti sem nú er gert. „Ykkar stuðningur er ómetanlegur og hver einasta króna skiptir máli.“

Þeim sem vilja styrkja jólaaðstoð Velferðarsjóð Eyjafjarðarsvæðis er bent á eftirfarandi söfnunarreikning:

  • Kennitala 651121-0780
  • Reikningur 0302-26-003533

Heimasíða Velferðarsjóðs Eyjafjarðarsvæðis