Fara í efni
Körfuknattleikur

Naumt tap KA fyrir ÍA í bragðdaufum leik

Steinþór Már Auðunsson bjargaði tvívegis með stórbrotinni markvörslu fljótlega eftir að ÍA gerði eina mark leiksins í dag. Mynd: Skapti Hallgrímsson

KA sótti ÍA heim í lokaumferð Bestu deildar karla í dag. Skagamenn eru í harðri Evrópubaráttu í efri helmingnum og þurfa á hverju stigi að halda í þeim slag en fyrir leikinn var ljóst að KA mun leika í neðri hluta deildarinnar eftir að deildinni verður skipt upp. Fókusinn hjá KA-mönnum er kannski kominn hálfa leið á bikarúrslitaleikinn um næstu helgi, en þar mætir liðið Víkingum annað árið í röð, og sá leikur skiptir gríðarlega miklu máli fyrir félagið.

Aðstæður til knattspyrnuiðkunar voru með betra móti á Skipaskaga í dag – vindurinn skaplegur, sem gárungarnir telja til tíðinda! Liðin skarta auk þess heitustu framherjum deildarinnar um þessar mundir, þeim Viktori Jónssyni og Viðari Erni Kjartanssyni, en þeim tókst þó hvorugum að komast á blað í dag. ÍA fór með 1:0 sigur af hólmi í bragðdaufum leik, þar sem KA-menn voru lengst af heldur líflegri.

Leikurinn fór rólega af stað en KA-menn voru þó sprækari fyrsta hálftímann og virtust líklegri til afreka. Viðar Örn Kjartansson gerði vel í að koma sér í gott færi á 31. mínútu en skot hans var ekki nógu gott og boltinn fór beint í krumlurnar á Árna markverði.

Rétt á eftir kom eina mark leiksins en það gerði Rúnar Már Sigurjónsson fyrir heimamenn þegar hann sneiddi hornspyrnu samherja síns laglega í netið. KA-menn virtust ögn slegnir út af laginu við þetta og á næstu fimm mínútum þurfti Steinþór Már í markinu heldur betur að taka á honum stóra sínum og bjargaði tvívegis með stórbrotinni markvörslu. Á lokamínútu hálfleiksins fengu heimamenn afar ódýra aukaspyrnu rétt utan vítateigs en gott skot Rúnars Más fór í þverslá og yfir.

Hafi fyrri hálfleikur verið tíðindalítill þá var enn minna um að vera í þeim seinni. Viljinn virtist samt áfram vera meiri hjá KA en heimamönnum, án þess þó að það skilaði sér í marktækifærum, og ÍA fagnaði eins marks sigri og fjórða sætinu í deildinni. KA þurfti að sætta sig við annað tapið í röð, eftir taplausa hrinu frá því í júní, og hefur að litlu að keppa í deildinni eftir tvískiptingu. Nema auðvitað hampa efsta sætinu í neðri helmingnum, eins og þeir gerðu á síðasta tímabili.

Ekki var að sjá á leik liðsins í dag að leikmennirnir væru komnir á úrslitaleikinn á Laugardalsvelli í huganum. Þeir gáfu allt í verkefnið og þó að uppskeran hafi engin verið í dag geta þeir huggað sig við það að um næstu helgi gefst þeim tækifæri til að lyfta afar eftirsóttum bikar og það er uppskera sem alla knattspyrnuiðkendur dreymir um.

Leikskýrslan og staðan í deildinni.