Fara í efni
Körfuknattleikur

Komast KA-strákarnir í bikarúrslitahelgina?

Baráttuvilji! KA-maðurinn Daði Jónsson og Hans Jörgen Ólafsson, leikmaður Stjörnunnar, báðir staðráðnir að ná boltanum á undan mótherjanum í viðureign liðann í KA-heimilinu í haust. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Sæti í fjögurra liða úrslitum bikarkeppni karla í handbolta – bikarúrslitahelginni – eru í húfi í kvöld þegar KA fær Aftureldingu í heimsókn í átta liðum Poweradebikarkeppninnar.

Liðin áttust við í Olísdeild Íslandsmótsins í KA-heimilinu á laugardaginn og skildu þá jöfn, 28:28, eftir mikla dramatík þar sem KA var tveimur mörkum yfir þegar ein og hálf mínúta var eftir en hornamaðurinn Ihor Kopyshynskyi tryggði gestunum stig með tveimur síðustu mörkunum.

Nú er að duga eða drepast; KA-strákarnir hafa átt erfitt uppdráttar í vetur en sýndu á laugardaginn að þeir eru til alls vísir og vonandi komast þeir í kvöld yfir þann erfiða hjalla sem Mosfellingarnir eru. Gera verður ráð fyrir mikilli baráttu í KA-heimilinu og ástæða er til að hvetja fólk til að fjölmenna og styðja við bakið á sínum mönnum því þátttaka í undanúrslitum er mikil skemmtun. Margir muna bikarúrslitahelgina fyrir tveimur árum þar sem KA komst alla leið í úrslit en tapaði reyndar fyrir Val.

Vert er að benda á KA-menn eiga aldeilis harma að hefna því þeir mættu Aftureldingu einnig í átta liða úrslitum bikarkeppninnar á heimavelli í fyrravetur og töpuðu eftir framlengingu.

Stjarnan tryggði sér sæti í undanúrslitunum í gærkvöldi með naumum sigri á ÍR og tveir leikir eru á dagskrá í kvöld. KA og Afturelding hefja leik í KA-heimilinu klukkan 19.00 og og hálftíma verður flautað til viðureignar Fram og Vals á heimavelli þeirra fyrrnefndu í Úlfarsárdal.

Ekki er ljóst hvort það verða FH, ÍBV eða Haukar sem verða fjórða liðið í undanúrslitunum; FH er löngu komið í átta liða úrslit en kærumál er enn í ferli hjá áfrýjunardómstól HSÍ vegna leiks ÍBV og Hauka í Eyjum og því ekki ljóst hvort FH-ingar mæta Eyjamönnum eða nágrönnum sínum í Haukum.