Fara í efni
Körfuknattleikur

Meistararnir unnu ungt lið Þórs/KA

Akureyringurinn Anna Rakel Pétursdóttir skoraði eina mark leiksins. Mynd: Þórir Ó. Tryggvason.

Þór/KA tók í dag á móti Íslandsmeisturum Vals í annarri umferð efri hluta Bestu deildar kvenna í knattspyrnu. Gestirnir höfðu betur með einu marki gegn engu. Valskonur eru í harðri baráttu við Breiðablik um Íslandsmeistaratitilinn en heimastúlkur þurftu að sama skapi á stigum að halda til að halda Víkingum frá sér í baráttunni um þriðja sætið.

Meðalaldur leikmanna Þórs/KA var talsvert lægri í dag en oftast áður, því þær Lara Ivanuša og Lidija Kuliš eru farnar frá félaginu og þær Bryndís Eiríksdóttir og Ísfold Marý Sigtryggsdóttir voru ekki með í dag. En efniviðurinn er nægur hjá félaginu og þær sem komu inn í liðið í dag stóðu sig með stakri prýði, enda ekki að spila sinn fyrsta fótboltaleik þrátt fyrir ungan aldur.


Sólin gerði leikmönnum oft lífið leitt í fyrri hálfleiknum, en þá spilaði Þór/KA á móti sól eftir að gestirnir unnu uppkastið í upphafi leiks. Sólin var svo sest þegar flautað var til seinni hálfleiks. Mynd: Þórir Ó. Tryggvason.

Valskonur voru töluvert sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og stjórnuðu leiknum lengst af. Þær náðu þó ekki að skapa sér mörg álitleg marktækifæri en eina mark hálfleiksins var þó þeirra. Það gerði norðanstúlkan Anna Rakel Pétursdóttir á 9. mínútu með bylmingsskoti upp í markhornið frá vítateigslínu, eftir að boltinn hafði hrokkið til hennar eftir misheppnað skot samherja. Stórglæsilegt mark.

Svipað var uppi á teningnum í seinni hálfleik, gestirnir réðu ferðinni og sköpuðu sér reyndar heldur fleiri færi en fyrir hlé. Valsarar hittu ekki markið úr nokkrum upplögðum færum, auk þess sem Shelby Money varði nokkrum sinnum vel. Á lokamínútu venjulegs leiktíma hefði Jasmín Erla Ingadóttir getað gulltryggt sigur Vals, þegar liðið fékk útsöluvítaspyrnu frá varnarmönnum Þórs/KA, en slök spyrna hennar fór framhjá markinu. Þrátt fyrir góða baráttu náðu heimastúlkur ekki að ógna marki gestanna að ráði og þurftu því að sætta sig við eins marks tap.

Sanngjarn sigur Vals viðheldur spennunni í baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn en Þór/KA hefur nú aðeins eins stigs forskot á Víkinga í baráttunni um þriðja sætið. Liðin mætast innbyrðis í síðustu umferðinni en næsti leikur Þórs/KA er útileikur gegn Breiðabliki um næstu helgi.

Smellið hér til að lesa leikskýrsluna og hér til að skoða stöðuna í deildinni.