Fara í efni
Körfuknattleikur

Íshokkí, fótbolti, karfa og handbolti í vikunni

Flestar helgar í vetur hafa verið þéttsetnar af íþróttakappleikjum hjá Akureyrarliðunum, heima og að heiman. Nú bregður hins vegar svo við að vikan fram undan er full af leikjum, en komandi helgi öllu rólegri. Hugsanlegt er þó að Íslandsmeistarabikar í íshokkí kvenna verði lyft á laugardag og mögulegt að Þórsarar vinni Grill 66 deild karla í handknattleik án þess að eiga leik á laugardaginn.

Svona er vikan fram undan:

ÞRIÐJUDAGUR - fótbolti, íshokkí

Þór/KA sækir Fylki heim í Árbæinn í kvöld kl. 18 í lokaleik liðsins í riðli 1 í A-deild Lengjubikars kvenna í knattspyrnu. Liðið þarf á sigri að halda til að tryggja sér sæti í undanúrslitum mótsins. Leikurinn átti að vera sunnudaginn 2. mars, en honum var frestað þá vegna ófærðar og óveðurs.

  • A-deild Lengjubikars kvenna, riðill 1
    Würth-völlurinn í Árbæ kl. 18
    Fylkir - Þór/KA

Þróttur er í efsta sæti riðilsins með tíu stig, en Þór/KA og Valur bæði með níu stig. Tvö af þessum þremur liðum fara áfram í undanúrslitin, en Þróttur og Valur mætast einmitt í lokaleik riðilsins á miðvikudaginn. Vinni Þór/KA leikinn í kvöld er ljóst að liðið fer í undanúrslitin, en úrslitin í leik Þróttar og Vals myndu þá ráða því hvort Þór/KA endar í 1. eða 2. sæti riðilsins. Liðin sem vinna riðlana fá heimaleik í undanúrslitunum og eru þeir leikir settir á föstudaginn 21. mars samkvæmt leikjadagskrá mótsins.

- - -

Þór tekur á móti FH A-deild Lengjubikars karla í knattspyrnu í Boganum í kvöld kl. 19. Hér er um lokaleik í riðli 3 að ræða Með sigri myndi Þór vinna riðilinn og fara í undanúrslit mótsins. ÍR er í toppsæti riðilsins með sjö stig, Afturelding og Þór með sex stig, HK fjögur og FH þrjú. Leikur Þórs og FH er sá eini sem eftir er í riðlinum og hafa FH-ingar í raun ekki að neinu að keppa því þeir geta ekki komist í toppsætið sem gefur sæti í undanúrslitunum. 

  • A-deild Lengjubikars karla, riðill 3
    Boginn kl. 19
    Þór - FH

Valur, Fylkir og KR hafa nú þegar tryggt sér sæti í undanúrslitum sem sigurlið í hinum riðlunum. Fari svo að Þór vinni riðilinn mæta Þórsarar liði Vals að Hlíðarenda í undanúrslitunum og er sá leikur á dagskrá þriðjudaginn 18. mars kl. 19:15 samkvæmt leikjadagskrá mótsins. Lei

Þórsarar hafa unnið tvo leiki til þessa, gegn HK og ÍR, en fengu skell á móti Aftureldingu í Mosfellsbænum. Þeim nægir ekki jafntefli í leiknum gegn FH þar sem ÍR er með betri markamun á toppi riðilsins.

- - -

Fyrsti leikur í úrslitaeinvígi um Íslandsmeistaratitilinn í íshokkí kvenna fer fram í Egilshöllinni í kvöld kl. 19:45. Þá sækja SA-konur lið Fjölnis heim, en Fjölnir vann deildarmeistaratitilinn á dögunum og á því heimavallarréttinn í einvíginu. 

  • Úrslitakeppni Íslandsmóts kvenna í íshokkí
    Egilshöll kl. 19:45
    Fjölnir - SA

Þessi lið mættust átta sinnum í Toppdeildinni í vetur. Þrisvar þurfti framlengingu og vítakeppni til að skera úr um sigur. Fjölnir vann fjóra leiki í venjulegum leiktíma og einn eftir vítakeppni. SA vann einn eftir venjulegan leiktíma og tvo eftir vítakeppni. Fjórir af þeim fimm leikjum sem ekki fóru í framlengingu og vítakeppni unnust með eins marks mun, en einu sinni vann Fjölnir heimaleik 3-0. 

Það má því vænta þess að einvígið verði jafnt og spennandi og alveg víst að SA-konur vilja endurheimta Íslandsmeistaratitilinn sem Fjölnir vann í fyrra. Þetta verður fimmta árið í röð sem þessi félög mætast í úrslitaeinvíginu, en undanfarin fjögur ár hefur SA ávallt átt heimavallarréttinn eftir að hafa unnið deildarmeistaratitilinn. Nú er það Fjölnir sem er deildarmeistari og hefst einvígið því í Egilshöllinni. 

Úrslitin í einvígjum þessara liða undanfarin fjögur ár:

  • 2024: SA - Fjölnir 1-3
  • 2023: SA - Fjölnir 3-0
  • 2022: SA - Fjölnir 3-0
  • 2021: SA - Fjölnir 2-1

MIÐVIKUDAGUR - körfubolti

Kvennalið Þórs í körfuknattleik mætir Haukum, toppliði Bónusdeildarinnar, á útivelli á miðvikudagskvöld í næstsíðustu umferð deildarinnar. Haukar geta með sigri tryggt sér deildarmeistaratitilinn, en Þór er í harðri baráttu við Njarðvík og Keflavík um 3. sæti deildarinnar. Haukar hafa unnið 17 leiki, Njarðvík er í 2. sæti með 15 sigra, Þór í 3. sæti með 13 sigra og Keflavík hefur unnið 12 leiki.

  • Bónusdeild kvenna í körfuknattleik, A-hluti
    Ásvellir í Hafnarfirði kl. 19:15
    Haukar - Þór

Leikur Þórs gegn Haukum á miðvikudagskvöldið er sá síðasti fyrir undanúrslitaleikinn gegn Grindvíkingum sem fram fer í Smáranum í Kópavogi þriðjudaginn 18. mars.

FIMMTUDAGUR - körfubolti, íshokkí

Karlalið Þórs í körfuknattleik er í harðri baráttu um að halda 5. sætinu í 1. deildinni áður en kemur að umspili um laust sæti í efstu deild. Nú þegar er ljóst að Þórsarar enda annaðhvort í 5. eða 6. sæti deildarinnar og eiga þar í keppni við Fjölni. Það eru einmitt Fjölnismenn sem mæta til Akureyrar á fimmtudagskvöldið.

  • 1. deild karla í körfuknattleik
    Íþróttahöllin á Akureyri kl. 19:15
    Þór - Fjölnir

Með sigri tryggja Þórsarar sér heimavallarréttinni fyrstu umferð umspilsins, þar sem þeir munu einmitt mæta Fjölni. Þór vann fyrri leik liðanna í deildinni í vetur með 18 stiga mun í Grafarvoginum. Fari Fjölnir með sigur af hólmi þurfa Þórsarar að vinna Ármann á útivelli í lokaumferðinni og treysta á að Fjölnir tapi heima gegn Skallagrími.

Efsta lið 1. deildar fer beint upp í Bónusdeildina og það sæti hafa Skagamenn tryggt sér nú þegar undir stjórn fyrrverandi þjálfara Þórs, Óskars Þórs Þorsteinssonar. Næst fyrir ofan Þór og Fjölni er Sindri með 13 sigra, Þór og Fjölnir hafa unnið 11 leiki, en þar fyrir neðan eru Breiðablik og Snæfell sem hafa unnið átta leiki.

- - -

Annar leikur í úrslitaeinvígi SA og Fjölnis um Íslandsmeistaratitilinn í íshokkí kvenna fer fram í Skautahöllinni á Akureyri fimmtudagskvöldið 13. mars. Fyrsti leikur fer fram í Egilshöllinni í Reykjavík á þriðjudag. Vinna þarf þrjá leiki í seríunni til að hampa Íslandsmeistarabikarnum.

  • Íslandsmótið í íshokkí kvenna, úrslitaeinvígi
    Skautahöllin á Akureyri kl. 19:30
    SA - Fjölnir

- - -

FÖSTUDAGUR - handbolti

Þó KA/Þór hafi fyrir nokkru tryggt sér sigur í Grill 66 deildinni í vetur og sæti í efstu deild, Olísdeildinni, á næsta tímabili á liðið enn eftir að spila tvo leiki. Næstsíðasta umferð deildarinnar verður spiluð á föstudagskvöldið og hefjast allir leikirnir kl. 19:30. KA/Þór sækir Fjölni heim.

  • Grill 66 deild kvenna í handknattleik
    Fjölnishöll í Grafarvogi kl. 19:30
    Fjölnir - KA/Þór

Lokaleikur KA/Þórs er svo heimaleikur gegn Fram 2 sunnudaginn 23. mars.

LAUGARDAGUR - íshokkí

Þriðji leikurinn í úrslitaeinvígi SA og Fjölnis um Íslandsmeistaratitil kvenna í íshokkí verður leikinn í Egilshöllinni laugardaginn 15. mars. Þá í fyrsta lagi gæti annað hvort liðið tryggt sér titilinn því vinna þarf þrjá leiki í seríunni. Miðað við hve jafnir leikir liðanna hafa verið í vetur er þó ef til vill ekki líklegt að úrslit einvígisins ráðist í þremur leikjum.

  • Íslandsmótið í íshokkí kvenna, úrslitaeinvígi
    Egilshöllin kl. ??
    Fjölnir - SA

- - -

Þó karlalið Þórs í handknattleik eigi ekki leik um komandi helgi gæti engu að síður farið svo að liðið verði deildarmeistarar í Grill 66 deildinni og fái þar með sæti í efstu deild, Olísdeildinni, á næsta tímabili. Þór leikur lokaleik sinn í deildinni 29. mars, en Selfyssingar, eina liðið sem getur ógnað þeim í efsta sætinu, spilar lokaleik sinn gegn Fram 2 laugardaginn 22. mars. Ef Selfyssingar vinna ekki þann leik er efsta sætið Þórsara, en vinni Selfoss leikinn þurfa Þórsarar a.m.k. jafntefli við HK 2 í lokaleik sínum.