Fara í efni
Knattspyrna

Lætur KA kné fylgja kviði eða hefnir Fram?

Hallgrímur Mar Steingrímsson tekur ofan fyrir stuðningsmönnum KA eftir að hann skoraði í bikarleiknum gegn Fram á dögunum. Mynd: Skapti Hallgrímsson

KA mætir Fram á heimavelli í dag í Bestu deildinni í knattspyrnu. Flautað verður til leiks á Greifavellinum sunnan við KA-heimilið kl. 17.00.

Leikurinn er gríðarlega mikilvægur fyrir KA-menn, eins og reyndar allir leikir þessa dagana; KA-liðið er neðst í deildinni, hefur aðeins nælt í fimm stig af 30 mögulegum í 10 leikjum í sumar. Framarar eru í sjöunda sæti með 13 stig úr 10 leikjum.

Með sigri í dag kemst KA upp úr neðsta sætinu, að minnsta kosti tímabundið, en Fylkir, sem þar situr nú, sækir FH heim í kvöld.

KA hefur aðeins unnið einn leik, gegn Fylki á heimavelli, gert tvö jafntefli og tapað sjö leikjum.

Lið KA og Fram mættust fyrir skömmu í átta liða úrslitum bikarkeppninnar á Akureyri og þá unnu KA-strákarnir öruggan 3:0 sigur. Eftir afar erfitt gengi sáust þá loks veruleg batamerki á KA-liðinu og aftur lék liðið vel í næsta leik en tapaði þó 2:1 fyrir Breiðabliki á útivelli í deildinni.

Fróðlegt verður að sjá hvernig liðin koma stemmd til leiks í dag? Láta KA-menn kné fylgja kvíði eða ná Framarar að hefna fyrir tapið í bikarleiknum? Svar við þeirri spurningu fæst laust fyrir klukkan sex síðdegis.

Stuðningsmannaupphitun hefst kl. 15:00 að því er segir á samfélagsmiðlum KA; heitt verður á grillinu, tilboð á drykkjum og ýmsir leikir í boði, segir þar.