Fara í efni
Knattspyrna

Naumur sigur KA og markasúpa hjá Þór/KA

Sandra María Jessen og Margrét Árnadóttir skoruðu báðar þrennu í stórsigri Þórs/KA á liði Tindastóls í fyrstu umferð A-deildar Lengjubikarsins. Myndir: Þórir Ó. Tryggvason.

Tvö af þremur meistaraflokksliðum bæjarins í knattspyrnu spiluðu í Lengjubikarkeppnunum í dag. Karlalið KA mætti Njarðvík í Nettóhöllinni í Reykjanesbæ, en kvennalið Þórs/KA tók á móti Tindastóli í Boganum. Bæði Akureyrarliðin náðu sér í þrjú stig, en það var mismikið skorað í leikjunum.

Markalaust var eftir fyrri hálfleikinn í leik Njarðvíkur og KA í riðli 2 í A-deild karla í Lengjubikarkeppninni. Dagbjartur Búi Davíðsson skoraði eina mark leiksins á 71. mínútu og tryggði KA sigurinn.

KA er í 2. sæti riðilsins með fjögur stig eftir fyrstu tvo leiki liðsins í Lengjubikarnum, en Fram er í efsta sætinu með sex stig eftir tvo sigra.

Mark í Boganum á tíu mínútna fersti

Þór/KA hóf leik í Lengjubikarnum í dag með stórsigri á liði Tindastóls, 9-0. Fimm mörk litu dagsins ljós í fyrri hálfleik og fjögur í þeim seinni. Margrét Árnadóttir og Sandra María Jessen skiptust á að skora mörkin eftir að Karen María Sigurgeirsdóttir, Hulda Ósk Jónsdóttir og Sonja Björg Sigurðardóttir höfðu komið Þór/KA í 3-0. Þegar upp var staðið höfðu Margrét og Sandra María báðar skorað þrennu. 

Það þarf ekki að fara mörgum orðum um leikinn, yfirburðir Þórs/KA voru miklir og sýndu stelpurnar reyndar oft og tíðum skemmtilega takta og samspil, og skoruðu falleg mörk. 

Þór/KA, Þróttur og Valur eru öll með þrjú stig eftir fyrstu umferðina í riðli 1.