Knattspyrna
KSÍ vill úrslitakeppni í efstu deild karla
12.02.2021 kl. 18:56
KA-menn og KR-ingar eigast við á Akureyri í fyrra. Leikjum í efstu deild karla gæti fjölgað töluvert sumarið 2022. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.
Stjórn Knattspyrnusambands Íslands leggur til að í efstu deild karla, Pepsi Max deildinni, verði áfram 12 lið og leikin tvöföld umferð, en frá og með sumrinu 2022 bætist við úrslitakeppni, þar sem annars vegar verði leikin einföld umferð á milli sex efstu liða og hins vegar á milli sex neðstu liða.
Tillagan sem stjórn KSÍ leggur fram á þinginu er samhljóða því sem starfshópur KSÍ hafði áður lagt til. Ársþing KSÍ verður haldið 27. ferbrúar.
Fleiri tillögur um breytingar á fyrirkomulagi efstu deildar karla verða lagðar fram á þinginu:
- Knattspyrnudeild Fram leggur til að fjölgað verði úr 12 liðum í 14 frá og með sumrinu 2022, og áfram leikin hefðbundin, tvöföld umferð. Framarar leggja til að á komandi sumri falli aðeins eitt lið úr efstu deild karla og þrjú efstu lið næst efstu deildar, Lengjudeildarinnar, tryggi sér sæti í Pepxi Max deildinni 2022.
- Fylkismenn leggja til að liðum í efstu deild karla verði fækkað um tvö, þannig að sumarið 2022 yrðu 10 lið í deildinni og leikin yrði þreföld umferð.
- Akurnesingar leggja til að áfram verði 12 lið í efstu deild karla en frá og með 2022 verði hins vegar leikin þreföld umferð.
Með því að smella hér er hægt að skoða öll þingskjöl.