Fara í efni
Kirkjutröppurnar

Ófyrirséð úrlausnarefni undir kirkjutröppunum

Þessi mynd var tekin þegar unnið var að því að brjóta upp gömlu tröppurnar fyrr í sumar. Mynd: Haraldur Ingólfsson.

Vegfarendur um miðbæ Akureyrar hafa tekið eftir og bent á að lítið virðist hafa gerst í framkvæmdum við kirkjutröppurnar í nokkurn tíma.

Akureyri.net forvitnaðist um ástæður þess að framkvæmdir virðast hafa legið að mestu niðri í einhvern tíma eftir að lokið var við að brjóta upp gömlu tröppurnar og fjarlægja. Skýringin er, að sögn Sigurðar Gunnarssonar, verkefnisstjóra nýframkvæmda hjá umhverfis- og mannvirkjasviði Akureyrarbæjar, að minni kraftur hafi verið í framkvæmdum í ágúst vegna sumarleyfa. Einnig hafi komið upp ýmis ófyrirséð úrlausnarmál varðandi húsnæðið undir tröppunum sem hafi þurft að bregðast við og segir Sigurður að unnið hafi verið að þeim málum undanfarið, þeim framkvæmdum sé að ljúka.

Þá segir Sigurður einnig í svari við fyrirspurn frá Akureyri.net að lögð sé áhersla á að vanda allan undirbúning og framkvæmdina þó það kosti það að framkvæmdin taki lengri tíma.