Fara í efni
Kirkjutröppurnar

Kirkjutröppurnar kláraðar í lok júlí

Þessi mynd var tekin 13. júlí í fyrra, ekki löngu eftir að framkvæmdir hófust. Mynd: Haraldur Ingólfsson.

Fyrirséð er að framkvæmdalokum við kirkjutröppur Akureyrarkirkju muni seinka til loka júlí. Þetta kemur fram í bókun frá fundi umhverfis- og mannvirkjaráðs Akureyrarbæjar í vikunni þar sem lögð voru fram drög að endurskoðaðri verkáætlun vegna framkvæmda við tröppurnar.

Í upphaflegum hugmyndum og undirbúningi fyrir verkið var miðað við að verklok yrðu í október, en fljótlega varð ljóst að það væri ekki raunhæft og var þá talað um að verkinu myndi ljúka á vordögum. Nú er ljóst að langt verður liðið á sumarið þegar heimafólk og gestir fá aftur að njóta þess að ganga upp eða niður tröppurnar.

Fram hafa komið ýmsar skýringar á þessum töfum eins og Akureyri.net hefur greint frá áður. Til dæmis gekk erfiðlega að fá verktaka í verkið í upphafi og gera þurfti meira en gert var ráð fyrir. „Það er miður að framkvæmdir við kirkjutröppurnar hafi tafist,“ segir meðal annars í bókun umhverfis- og mannvirkjaráðs, en ráðið leggur jafnframt áherslu á mikilvægi framkvæmdarinnar. „Umhverfis- og mannvirkjaráð leggur áherslu á að um er að ræða mikilvæga framkvæmd sem verður sannkölluð bæjarprýði, mikilvægt er að vandað sé til verka og tekið sé tillit til ráðlegginga fagfólks, þrátt fyrir að það þýði tafir á verklokum.“


Í gær. Sigurhæðaskiltið bíður þess að komast aftur á sinn stað. Myndir: Haraldur Ingólfsson.

13. maí 2023.