Tvö brenndust mjög illa í sprengingu – miklar reykskemmdir
Karl og kona, starfsmenn lyfja- og snyrtivöruverksmiðjunnar Pharmarctica á Grenivík, slösuðust mjög alvarlega síðdegis þegar sprenging varð í húsinu og eldur kviknaði. Þau eru illa brennd; fólkið var flutt á Sjúkrahúsið á Akureyri og þaðan með sjúkraflugi til Reykjavíkur. Þriðji starfsmaður Pharmarctica var fluttur á Sjúkrahúsið á Akureyri með reykeitrun.
Að sögn Þorkels Pálssonar, slökkviliðsstjóra í Grýtubakkahreppi, dreifðist eldurinn ekki um húsið og ekki tók langan tíma að slökkva hann. Hann sagði hins vegar við Akureyri.net á Grenivík síðdegis að reykur hefði farið um allt hús og mjög miklar reykskemmdir væru í verksmiðjunni.
Tilkynning um sprenginguna barst þegar klukkan var gengin 12 mínútur í fjögur, að sögn Þorkels. Slökkvibílar og sjúkrabílar brunuðu strax af stað frá Akureyri, svo og lögreglumenn. Mannskapurinn aðstoðaði Slökkvilið Grýtubakkahrepps við reykræstingu og rannsóknarlögreglumenn hófust þegar handa á vettvangi. Ekki er vitað hvað orsakaði sprenginguna.
Fimm aðrir starfsmenn voru í húsinu þegar sprengingin varð og var þeim boðin áfallahjálp.