Handbolti.is: KA/Þór gerði 26 mörk - 27 skráð!
Fullyrt er á handboltavefnum handbolti.is í kvöld að leik Stjörnunnar og KA/Þórs í Olís deildinni í handbolta í dag hafi í raun átt að ljúka með jafntefli en ekki eins marks sigri Akureyrarliðsins, 27:26. Fyrir handvömm á ritaraborði í TM-höllinni í Garðabæ hafi eitt mark verið skráð aukalega á KA/Þór. Leikskýrsla hefur ekki enn verið skráð inn hjá HSÍ en þar er úrslitin að finna, eins marks sigur Akureyringa.
Ritstjóri handboltavefsins var á leiknum og þegar hann hugðist bera saman bókhald sitt við opinberu tölurnar þegar heim kom, kom í ljós að ekki var allt með felldu. Þess vegna horfði hann á upptöku frá leiknum og komst að því hvers kyns var.
„Fyrir handvömm var marki bætt á KA/Þór undir lok fyrri hálfleiks þegar Stjarnan skoraði sitt 12. mark og staðan þar með orðin 17:12, KA/Þór í vil. Markið sem Thelma Sif Sófusdóttir skoraði fyrir Stjörnuna var fyrst skráð á leikklukkuna á lið KA/Þórs en síðan réttilega skráð á Stjörnuna. Um leið gleymdist að lagfæra markaskorið á KA/Þór og færa niður í 17 úr 18. Þar af leiðandi var staðan 18:12 samkvæmt markatöflunni en átti að vera 17:12,“ segir handbolti.is.
Fróðlegt verður að fylgjast með framvindu þessa máls.
Smelltu hér til að lesa fréttina á handbolti.is