Fara í efni
KA/Þór

KA og Breiðablik mætast í Meistarakeppni KSÍ

Bikarinn er okkar! Ásgeir Sigurgeirsson fyrirliði KA með Mjólkurbikarinn sem heiðursgestur félagsins á leiknum afhenti fyrirliðanum;  heiðursgesturinn, Skúli Ágústsson, er beint fyrir framan fyrirliðann. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Íslandsmeistarar Breiðabliks og bikarmeistarar KA mætast í dag í Meistarakeppni Knattsyrnusambands Íslands, árlegum leik sem stundum er sagður marka upphaf hinnar „alvöru“ vertíðar knattspyrnuliðanna. Leikið verður á Kópavogsvelli og hefst viðureignin klukkan 16.15. Sigurvegarinn ber nafnbótina Meistari meistaranna næsta árið.

Breiðablik varð Íslandsmeistari eftir harða baráttu við Víkinga; Kópavogsliðið hlaut 62 stig í 27 leikjum en Víkingar 59 stig. KA-menn urðu bikarmeistarar með 2:0 sigri á Víkingum í eftirminnilegum úrslitaleik á Laugardalsvelli 21. september þar sem mikið var um dýrðir á sögulegum degi því þetta var fyrsti sigur KA í bikarkeppninni. KA komst í 1:0 á 37. mín. eftir baráttu í teignum og var það úrskurðað sjálfsmark Peters Olivers Ekroth, og Dagur Ingi Valsson gulltryggði sigurinn með marki í uppbótartíma.

KA og Breiðablik mættust tvisvar á Íslandsmótinu síðasta sumar og Breiðablik vann báða leikina; fyrst 2:1 í Kópavogi í júní og síðan 3:2 á Greifavelli KA 1. september. Liðin mættust síðast í Lengjubikarkeppni um miðjan síðasta mánuð í Boganum og þá unnu Blikarnir 5:0.

  • Leikurinn í Kópavogi hefst klukkan 16.15 sem fyrr segir og verður sýndur á aðalrás RÚV

KA-menn fagna ógurlega, sem vonlegt er, eftir að Daníel Ingi Valsson gerði seinna markið í bikarúrslitaleiknum í fyrra.

Viðar Örn Kjartansson, framherji KA, og varnarmaðurinn Daniel Obbekjær í liði Breiðabliks í seinni leik liðanna í Bestu deild Íslandsmósins í fyrra. Viðar Örn gerði tvö mörk í leiknum sem Blikar unnu 3:2. Mynd: Skapti Hallgrímsson