Fara í efni
KA/Þór

Hauganes: Fjöruböð, hótel og frístundabyggð

Fjöruböðin verða með sterka tengingu við sjóinn, fjöruna, sjómennsku og siglingamenningu. Pottarnir sem gestir munu baða sig í líkjast m.a. bátum og húsakosturinn minnir á verðbúðir og torfbæi.

Nýtt og stærra baðsvæði verður byggt upp á Hauganesi og einnig stendur til að þar rísi 40 herbergja hótel og frístundabyggð. Vonast er til að aðstaðan verði tilbúin eftir nokkur ár. 

Fjöruböðin er nafnið á nýja baðsvæðinu sem byggt verður upp vestan við núverandi potta í Sandvíkurfjöru. Verkefnið var kynnt í vor en það gerir ráð fyrir alveg nýju hverfi á Hauganesi sem byggir alfarið á þjónustu við ferðamenn. Hauganes er í Dalvíkurbyggð, um 30 kílómetrum norðan Akureyrar.

Gert er ráð fyrir því að gamli vegurinn sem liggur inn á Hauganes verði notaður sem aðaltenging inn á svæðið. Umferð ferðamanna og gesta Fjörubaðanna, hótelsins, frístundahúsanna og tjaldsvæðisins verður því beint á þennan veg en ekki í gegn um þéttbýlið eins og gert er í dag.

Ferðamönnum fjölgar á Hauganesi

Það er Elvar Reykjalín, framkvæmdastjóri Ektafisks á Hauganesi sem er í forsvari fyrir verkefnið, en hann hefur fengið fjárfesta til liðs við sig. Akureyri.net ræddi nýlega við Elvar um breytingar hjá Ektafiski á Hauganesi en í því spjalli kom fram að fyrirtækið er hætt í útflutningi á saltfiski og ætlar Elvar og hans fólk þess í stað að snúa sér meira að því að þjónusta ferðafólk á Hauganesi enda hefur ferðamönnum fjölgað mjög í þorpinu á síðustu árum.

2                                                                         
Núverandi aðstaða í Sandvíkurfjörur. Heitu pottarnir munu ekki loka á meðan verið er að byggja upp Fjöruböðin enda rísa þau vestan við pottana. Mynd: fjorubodin.is

Mikil aðsókn kallar á betri aðstöðu

Heitir pottar hafa verið í Sandvíkurfjöru undanfarin 10 ár en upphaflega setti Elvar einn pott þar niður og enga búningsaðstöðu. „Ég hélt að það yrði nóg fyrir þá á 5-6 sem voru að koma í fjöruna og baða sig, en það hefur nú aldeilis breyst,“ segir Elvar. Síðar bættist við búningsaðstaða og fleiri pottar, þar af einn sem er eins og skipstafn í laginu. „Aðstaðan sem ég hef verið með hefur eiginlega ekki verið boðleg. Maður hafði bara ekki efni á neinu nema einhverju svona frumstæðu meðan maður var að sjá til hvernig gengi. Sumum líkar að þetta sé bara hrátt og einfalt en flestir vilja hafa aðeins meira þægindi,“ segir Elvar og bætir við að þessi einfalda aðstaða hafi gengið ágætlega þegar gestir voru færri en með aukinni aðsókn er komin þörf á betri aðstöðu. Hann upplýsir einnig að heitu pottarnir séu ekkert á förum, þeir munu vera á sínum stað allan framkvæmdatímann, og jafnvel lengur, því nýja baðsvæðið rís vestan megin við pottana. 

Elvar Reykjalín er frumkvöðull á Hauganesi. Ferðamönnum hefur fjölgað mikið á staðnum á undanförnum árum en þeir sækja þangað m.a. í hvalaskoðun, í nýju fiskbúðina hjá Ektafiski og á Baccalá bar. 

Hönnun sem vísar í sjómennskuna

Samkvæmt teikningum af nýju böðunum er þar gert ráð fyrir baðaðstöðu sem er byggð upp í sama anda og pottarnir sem fyrir eru, þ.e.a.s með sterka tengingu við sjóinn, fjöruna, sjómennsku og siglingamenningu. Pottarnir sem gestir munu baða sig í líkjast m.a. bátum frá fyrri tíð en gert er ráð fyrir nokkrum pottum með mismunandi hitastigi með bæði salt- og ferskvatni. Þá verða þar tvær laugar, gufubað, heilsulind og bryggja sem gestir geta hoppað fram af beint í sjóinn. Eins er gert ráð fyrir bátahúsi sem hýsa mun sæþotur, kajaka og annan vatna- og tómstundabúnað sem hægt verður að leigja. Hægt er að sjá nánari lýsingar á verkefninu og myndefni inn á heimasíðunni fjorubodin.is Þar er einnig að finna upplýsingar um fyrirhugað hótel og frístundahúsin.

Við ætlum að reyna að halda þessu mjög hófstilltu. Þessi böð verða þannig að þú kemur í böðin en svo getur þú hoppað úr þeim niður í fjöruna og fundið sandinn á milli tánna ,hlaupið út í sjó og svo aftur upp í böðin. Þetta verður bara allt annað „konsept“ en er alls staðar annars staðar.

                                                                       
Fjöruböðin verða með beina tengingu við sjóinn og geta gestir gengið niður í fjöru eða synt í sjónum, milli þess sem þeir hlýja sér í gufunni eða heitum pottum. Hönnun Fjörubaðanna er í höndum Nordic Office of Architecture. 

Öðruvísi baðsvæði

Einhverjum finnst það kannski vera að bera í bakkafullan lækinn að byggja enn einn baðstaðinn á Norðurlandi stutt er t.d. í Skógarböðin við Akureyri og Geosea á Húsavík. Elvar segir hins vegar fulla þörf á enda hefur ferðamannafjöldinn á Hauganesi vaxið með hverju ári. „Þetta verður ekkert glamúr dæmi. Við ætlum að reyna að halda þessu mjög hófstilltu. Þessi böð verða þannig að þú kemur í böðin en svo getur fólk hoppað úr þeim niður í fjöruna og fundið sandinn á milli tánna, hlaupið út í sjó og svo aftur upp í böðin. Þetta verður bara allt annað „konsept“ en er alls staðar annars staðar.“

Aðspurður um stöðuna á þessu stóra byggingaverkefni þá segir Elvar að skrifað hafi verið undir viljayfirlýsingu í vor og til standi að klára samninga við Dalvíkurbyggð nú í nóvember. Þá tekur við ferli er tengist breytingum á deiliskipulagi og aðalskipulagi. „Við sögðum í sumar að við vonuðumst til þess að árið 2029-30 þá yrði þetta komið upp. En það hefur dregist að klára málin svona formlega, sem auðvitað getur alltaf gerst, en þegar öll leyfi eru komin reiknum við með að leggja mikinn kraft í að byggja þetta upp.“