Fara í efni
KA/Þór

Bærinn harmar seinagang Isavia við að bæta öryggi

Akureyrarflugvöllur eftir að ný álma flugstöðvarinnar og nýtt flughlað var tekið í notkun. Mynd: Hörður Geirsson
Bæjarráð Akureyrar hefur áhyggjur af þeirri töf sem orðið hefur á því að hanna nýja aðflugsferla fyrir fyrir lendingar véla úr suðri á Akureyrarflugvelli. Samkvæmt reglum sem íslensk stjórnvöld hafa fullgilt átti að ljúka verkinu fyrir 25. janúar á þessu ári og skorar bæjarráð á Isavia að ljúka verkinu sem fyrst.
 
Þetta kemur fram í fundargerð bæjarráðs í morgun. Þar var merkum áfanga í samgöngumálum fagnað, reglubundnu flugi easyJet frá Akureyri til London og Manchester, en seinkun á þeirri þörfu úrbót varðandi aðflug sem lengi hafi blasað við er hörmuð. Nýir aðflugsferlar muni bæta aðgengi og öryggi umtalsvert, „ekki síst fyrir núverandi flug easyJet. Í vetur eru áætluð um 100 flug.“
 
Í fundargerðinni segir einnig:
 
  • Bættir flugferlar úr suðri hafa legið á borði Isavia frá árinu 2020, en frumdrög voru hönnuð þegar árið 2017.
  • Samkvæmt reglum sem stjórnvöld hafa fullgilt átti að ljúka verkinu fyrir 25. janúar 2024.
  • Bæjarráð harmar þessa seinkun og skorar á Isavia að ljúka útgáfu RNP ferla sem fyrst.


  • Rauða örin bendir á Hrafnagil. Þar þurfa flugstjórar nú að ákveða í síðasta lagi hvort þeir ætli að lenda eða snúa frá. Fjarlægð frá brautarenda er 8,3 kílómetrar og flughæð 1250 fet.
  • Græna örin bendir á staðinn þar sem flugstjórar geta í síðasta lagi ákveðið hvort þeir hyggist lenda eftir að hinir nýju aðflugsferlar verða teknir í notkun. Fjarlægð frá brautarenda er þá 2,2 kílómetrar og vélar geta verið komnar niður í 500 feta hæð frá jörðu. 
Myndina gerði Víðir Gíslason í ágúst árið 2023.
_ _ _


Umræddur liður í fundargerð bæjarráðs Akureyrar í morgun er svohljóðandi í heild:

Rætt um stöðu mála á Akureyrarflugvelli, aukið millilandaflug og seinkun á tilkomu aðflugsferla úr suðri.
Bæjarráð fagnar merkum áfanga í samgöngumálum með reglubundnu millilandaflugi easyJet, fyrst til Gatwick og sl. þriðjudag bættist Manchester við sem áfangastaður.

Hins vegar lýsir bæjarráð yfir áhyggjum með seinagang við hönnun nýrra RNP aðflugsferla úr suðri. Þörf á úrbótum hefur lengi blasað við, sem bæta mun aðgengi og öryggi umtalsvert, ekki síst fyrir núverandi flug easyJet. Í vetur eru áætluð um 100 flug.

Bættir flugferlar úr suðri hafa legið á borði Isavia frá árinu 2020, en frumdrög voru hönnuð þegar árið 2017.

Samkvæmt reglum sem stjórnvöld hafa fullgilt átti að ljúka verkinu fyrir 25. janúar 2024.

Bæjarráð harmar þessa seinkun og skorar á Isavia að ljúka útgáfu RNP ferla sem fyrst.