Fara í efni
Karl Guðmundsson – Kalli

U18 leikur um gullið í Tyrklandi í dag

SA-stelpurnar í U18 landsliðinu í íshokkí. Liðið mætir Tyrkjum í Istanbúl í dag í leik um gullverðlaun í riðlinum. Mynd: Elísabet Ásgrímsdóttir.

U18 landslið kvenna í íshokkí leikur núna í dag kl. 16 um gullverðlaun í B-riðli 2. deildar Heimsmeistaramótsins. Keppni í riðlinum fer fram í Istanbúl í Tyrklandi og eru heimakonur einmitt keppinautar íslenska liðsins í dag.

Akureyri.net sagði frá því í gær að 14 af 22 leikmönnum liðsins koma frá Skautafélagi Akureyrar. Liðið hefur nú þegar náð frábærum árangri, hefur unnið alla leiki sína til þessa, gegn Suður-Afríku, Belgíu og Mexíkó. Nú er væntanlega komið að erfiðasta leik liðsins í mótinu, úrslitaleik um gullverðlaun gegn heimaliðinu. Leikurinn hefst kl. 16:30 og verður í beinu streymi á YouTube. Leiknum seinkar um hálftíma frá því sem áformað var í leikjadagskránni.

Sigrar Íslands hingað til hafa allir verið öruggir og stórir, fyrst 17-0 gegn Suður-Afríku, þá 7-0 gegn Belgíu og svo 5-1 gegn Mexíkó í gær. Markið sem Mexíkó skoraði í gær var sem sagt fyrsta markið sem liði fékk á sig í mótinu, en markverðir liðsins koma báðir úr röðum SA.

Hér fyrir neðan er hægt að fara beint inn á hvert mark fyrir sig í vefstreymi frá leiknum í gær. SA-stelpurnar í hópnum skoruðu fjögur af mörkum gærdagsins, Magdalena Sulova tvö og þær Eyrún Arna Gunnlaugsdóttir og Kolbrún Björnsdóttir eitt hvor. Magdalena var valin maður leiksins. Þá átti Sólrún Assa Arnardóttir þrjár stoðsendingar, Kolbrún tvær og Aðalheiður Ragnarsdóttir eina.

Ísland - Mexíkó 1-0

Friðrika Magnúsdóttir (ættuð frá Akureyri, leikmaður SR) opnaði markareikning Íslands.

Ísland - Mexíkó 2-0

Magdalena Sulova skoraði með frábæru skoti fyrir utan, strax í fyrstu sókn eftir að leikur hófst að nýju eftir fyrsta markið.

Ísland - Mexíkó 3-1

Kolbrún Björnsdóttir skorar af stuttu færi.

Ísland - Mexíkó 4-1

Eyrún Arna Garðarsdóttir skorar með góðu skoti fyrir utan.

Ísland - Mexíkó 5-1

Magdalena Sulova skorar sitt annað mark í leiknum.