Fara í efni
Karl Guðmundsson – Kalli

Hokkístelpurnar í U18 unnu silfurverðlaun

U18 landslið kvenna í íshokkí sem vann til silfurverðlauna í sínum styrkleikaflokki, 2. deild B, á Heimsmeistaramótinu. Mynd: Elísabet Ásgrímsdóttir.

Stúlknalandslið Íslands í íshokkí, skipað leikmönnum 18 ára og yngri, vann til silfurverðlauna í sínum styrkleikaflokki, 2. deild B, á heimsmeistaramótinu. Eftir örugga sigra í fyrstu þremur leikjum mótsins mættu stelpurnar heimaliðinu, Tyrkjum, og misstu af gullinu eftir 0-2 tap

Akureyri.net hefur áður greint frá fjölda leikmanna frá Skautafélagi Akureyrar í U18 landsliðinu, en þar eru 14 SA-stelpur í 22ja manna hópi. 

Þrátt fyrir tap fyrir tyrknesku stelpunum, sem voru vel studdar af fjölmörgum áhorfendum að leiknum í gær, mega íslensku stelpurnar vel við 2. sætið og silfurverðlaunin una. Þrír góðir leikir og silfurverðlaun, en þeim tókst því miður ekki að skora hjá Tyrkjunum í gær. 

SA-stelpurnar áberandi

Eftir þrjá stórsigra kemur ekki á óvart að leikmenn íslenska liðsins raðist í efstu sæti nokkurra tölfræðiþátta mótsins.

  • Íslenska liðið átti þrjár af fjórum markahæstu í mótinu. Kolbrún Björnsdóttir skoraði flest mörk SA-stúlkna í mótinu, fimm mörk, og var næstmarkahæst leikmanna í mótinu. Fyrir ofan hana var Friðrika Magnúsdóttir, SR-ingur ættuð að norðan eins og við höfum áður sagt frá, með sjö mörk. Magdalena Sulova varð jöfn tyrkneskum leikmann í 3.-4. sæti með fjögur mörk.
  • Þær íslensku áttu fjórar á topp fimm yfir fjölda stoðsendinga á mótinu og þar af voru þrjár úr SA. Sólrún Assa Arnardóttir var þar efst á lista með níu stoðsendingar, Friðrika Magnúsdóttir úr SR kom næst með átta. Kolbrún Björnsdóttir var í 4. sæti með fimm stoðsendingar og Magdalena Sulova í 5. sæti með fjórar.
  • Þegar mörk og stoðsendingar eru lögð saman eru fimm íslenskar stelpur í sex efstu sætunum, Friðrika Magnúsdóttir efst (15), Sólrún Assa (12), Kolbrún (10), Magdalena (8) og Eyrún Garðarsdóttir (5).
  • Í tölfræði markvarða er Díana Óskarsdóttir úr SA næstefst með 93,33% markvörslu, en sú tyrkneska varði 97,87% þeirra skota sem hún fékk á sig. Íslenska liðið fékk á sig innan við eitt mark í leik að meðaltali.

Leikur Íslands og Tyrklands var í beinu streymi á YouTube-rás tyrkneska íshokkísambandsins, eins og allir leikir mótsins, og hægt að horfa á upptöku frá honum í spilaranum hér að neðan.