Fara í efni
Karl Guðmundsson – Kalli

Þórssigur þrátt fyrir villtan viðsnúning

Landfræðilegir nágrannar, Hollendingurinn Esther Fokke, sem var stigahæst Þórsara í kvöld með 27 stig, og Belginn Lore Devos, sem var stigahæst Hauka með 22 stig, eru við öllu búnar þegar hin bandaríska Diamond Alexis Battles sækir að Frakkanum Amandine Toi. Myndir: Skapti Hallgrímsson.

Önnur ótrúleg körfuboltaviðureign kvennaliða Þórs og Hauka á þremur dögum endaði með sigri Þórsara í kvöld, 86:80, eftir fullkominn fyrri hálfleik og seinni hálfleik sem tók á allar taugar sem til eru í stuðningsmönnum liðsins. Niðurstaðan varð að lokum sex stiga sigur Þórs með seiglu á lokamínútunni eftir að Haukar höfðu unnið þriðja leikhlutann með 18 stiga mun og næstum náð að jafna leikinn.

Gestirnir úr Hafnarfirði byrjuðu betur og skoruðu átta fyrstu stigin áður en Maddie Sutton skoraði fyrstu stig Þórs eftir um tveggja mínútna leik. Eftir það var fyrsti leikhlutinn hrein unun á að horfa. Það leið ekki á löngu þar til Þórsliðið fór að raða niður þristunum og staðan allt í einu orðin 16-11 um miðjan leikhlutann og 22-14 þegar þrjár mínútur voru eftir af leikhlutanum og þjálfari Hauka tók leikhlé. Fyrsti leikhlutinn var hraður, bæði lið að skora mikið og Þórsarar með átta stiga forskot, 32-24. Þórsstelpurnar hittu úr sjö af 11 þriggja stiga skotum og þar af átti Esther Fokke fjóra. Hún var komin með 14 stig í 1. leikhlutanum og bætti við tveimur á fyrstu mínútu 2. leikhluta, en fékk þá skömmu síðar sína þriðju villu og hvíldi alveg út fyrri hálfleikinn.

Natalia Lalic átti mjög tvískiptan leik, eins og kannski allt Þórsliðið. Hún kom inn af bekknum og skoraði 18 stig í fyrri hálfleik, en ekkert í þeim seinni. Mynd: Skapti Hallgrímsson.

Vitringur sagði eitt sinn að maður kæmi í manns stað. Það átti sannarlega við í Þórsliðinu í kvöld því Natalia Lalic tók til við að raða niður stigum, kom inn af bekknum og skoraði 18 stig í fyrri hálfleiknum, þar af með fjórum þristum í sex tilraunum. Skotnýting Þórsliðsins í fyrri hálfleik var mögnuð, svo ekki sé meira sagt, 13/22 í tveggja stiga skotum (59%), 9/14 í þriggja stiga (64%) og 8/8 úr vítaskotum. Nánast fullkominn fyrri hálfleikur og munurinn varð mestur 24 stig, en endaði í 23 stigum þegar fyrri hálfleiknum lauk.

Frábærar en mannlegar

Það sannast iðulega í íþróttum að frábært íþróttafólk er mannlegt og gerir mistök og það á við um stelpurnar í Þórsliðinu einnig. Þriðji leikhluti fór brösuglega af stað, reyndar hjá báðum liðum, skotnýtingin versnaði og bæði lið töpuðu boltanum nokkuð reglulega. Haukar náðu þó betra flugi og minnkuðu muninn jafnt og þétt á meðan Þórsliðið skoraði aðeins sex stig á fyrstu sex mínútum seinni hálfleiksins. 

Maddie Sutton var öflug í kvöld, að venju, skoraði 19 stig og tók 13 fráköst. Hún var með flest framlagsstig í Þórsliðinu, 29. Mynd: Skapti Hallgrímsson.

Leikurinn snérist alveg við þegar leið á 3. leikhlutann og Haukar söxuðu hratt á forskotið á sama tíma og villuvandræði fóru að gera Þórsliðinu erfiðara fyrir, Ester og Maddie báðar að fá sína fjórðu villu og fengu hvíld. Villunum fjölgaði reyndar einnig hjá Haukunum og þegar leið á lokafjórðunginn voru þrjár komnar með fjórar villur í hvoru liði. 

Áfall undir lokin

Eftir að hafa unnið þriðja leikhlutann með 18 stiga jókst sjálfstraustið hjá leikmönnum Hauka og forskot Þórs minnkaði og minnkaði. Þegar tæpar fjórar mínútur voru eftir varð Þórsliðið fyrir áfalli þegar Eva Wium meiddist á ökkla og gat ekki spilað meira í leiknum. Munurinn var þá kominn niður í fjögur stig, en í stað þess að láta áfallið og meiðsli Evu eyðileggja leikinn þjöppuðu Þórsarar sér saman, innan liðsins og uppi í stúkunni og saman tókst þessu magnaða teymi að klára leikinn. Eftir að Haukar minnkuðu muninn í tvö stig, 82-80, virkjuðu Þórsstelpurnar aftur síðustu orkudropana eins og í bikarleiknum á laugardaginn og náðu að sigla sigrinum í höfn með gríðarlegum sigurvilja, baráttu og ákafa í vörninni, lokatölurnar 86-80. Seinni hálfleikurinn og lokatölurnar gera það hins vegar að verkum að Haukar hafa betri árangur í innbyrðis viðureignum liðanna þar sem leikurinn á Ásvöllum endaði með níu stiga sigri þeirra. 

Þórsliðið náði að þrauka þrátt fyrir villuvandræði og meiðsli leikstjórnandans Evu Wium. Skotnýting liðsins var frábær í heildina í leiknum þótt fyrri og seinni hálfleikur hafi verið ólíkir um margt. Mynd: Skapti Hallgrímsson.

Esther var stigahæst í Þórsliðinu þrátt fyrir að spila aðeins rúmar tíu mínútur í fyrri hálfleiknum, en hún skoraði 27 stig og var með frábæra skotnýtingu, skoraði til dæmis úr sjö af níu þriggja stiga skotum. Maddie skoraði 19 stig og tók 13 fráköst og Natalia 18 stig, öll í fyrri hálfleiknum. Hjá Haukum var það Lore Devos sem skoraði mest eins og oft áður, 22 stig. 

  • Gangur leiksins: Þór - Haukar (32-24) (29-14) 61-38  (10-28) (15-14) 86-80 
  • Byrjunarlið Þórs: Amandine Toi, Emma Karólína Snæbjarnardóttir, Esther Fokke, Eva Wium Elíasdóttir, Maddie Sutton.
  • Staðan í deildinni
  • Ítarleg tölfræði leiksins

Helstu tölur leikmanna Þórs, stig/fráköst/stoðsendingar:

  • Esther Fokke 27 - 4 - 1 - 27 framlagsstig
  • Maddie Sutton 19 - 13 - 4 - 29 framlagsstig
  • Natalia Lalic 18 - 3 - 0
  • Eva Wium Elíasdóttir 12 - 3 - 6
  • Amandine Toi 8 - 4 - 9
  • Emma Karólína Snæbjarnardóttir 2 - 8 - 0+

Sigur Þórs í kvöld var áttundi heimasigur liðsins í jafnmörgum leikjum í deildinni og jafnframt níundi sigur liðsins í röð í deildinni og 11. sigurinn í röð í deild og bikar. Haukar eru þó áfram á toppi deildarinnar, hafa unnið 12 leiki, en Þórsliðið er með 11 sigra og nartar í hæla Hafnfirðinga þegar þrjár umferðir eru eftir af deildinni fyrir tvískiptingu. Keflavík er í 3. sæti með tíu sigra og Njarðvík í 4. sæti með níu sigra, en á leik til góða gegn Stjörnunni annað kvöld.

Leikir efstu liða sem eftir eru:

  • Þór: Aþena (ú), Stjarnan (h), Njarðvík (ú)
  • Haukar: Grindavík (h), Keflavík (ú), Tindastóll (h)
  • Keflavík: Tindastóll (út), Haukar (h), Aþena (ú)
  • Njarðvík: Stjarnan (h), Hamar/Þór (ú), Valur (ú), Þór (h)