Fara í efni
Karl Guðmundsson – Kalli

Eva meiddist – enn ekki ljóst hve alvarlega

Eva Wium Elíasdóttir var sárkvalin eftir að hún meiddist fjórum mínútum fyrir leikslok og Helgi Steinar Andrésson sjúkraþjálfari var fljótur á vettvang. Maddie Sutton og Esther Fokke fylgjast með, Natalia Lalic og Amandine Toi eru fjær. Myndir: Skapti Hallgrímsson

Eva Wium Elíasdóttir spilaði ekki síðustu fjórar mínúturnar í sigri Þórs á Haukum á Íslandsmótinu í körfubolta í kvöld, en hún þurfti að fara af velli eftir að hafa snúið sig illa á ökkla. Fyrstu viðbrögð gáfu til kynna alvarleg meiðsli, en þó er aldrei að vita og kemur væntanlega ekki í ljós fyrr en á morgun hvers eðlis meiðslin eru. Kannski fullsnemmt að vera með svartsýni núna.

Það fór sannarlega um stuðningsmenn Þórs í stúkunni, sem og þjálfara og samherja Evu þegar hún féll í gólfið veinandi af sársauka. En þrátt fyrir mikilvægi Evu í leik Þórs tókst liðsfélögum hennar að klára leikinn með sigri, vel studdar af mögnuðum stuðningsmönnum í stúkunni. 

Eva Wium leið miklar kvalir eftir að hún meiddist. Hún var sem betur fer brattari skömmu síðar eins og sjá má. Móðir hennar, Elín Sif Sigurjónsdóttir, er þarna með Evu ásamt Helga Steinari Andréssyni sjúkraþjálfara.

Leikurinn gegn Haukum í kvöld var sá þriðji á sjö dögum og reyndar þriðji sigurinn einnig. Þórsstelpurnar unnu Tindastól á Sauðárkróki á miðvikudag í liðinni viku, síðan Hauka í átta liða úrslitum VÍS-bikarsins á laugardag og svo Hauka aftur í kvöld í 15. umferð Bónusdeildarinnar. Næsti leikur liðsins er útileikur gegn Aþenu þriðjudaginn 28. janúar.

Eftir það kemur hlé vegna landsleikja og áfallið því ekki aðeins Evu og Þórsliðsins því hún hefur væntanlega verið líkleg í landsliðshópnum fyrir útileiki gegn Tyrkjum 6. febrúar og Slóvökum 9. febrúar. Gæti reyndar enn náð þeim leikjum ef meiðslin reynast ekki alvarleg.

Enn er þó engin ástæða til svartsýni, vika í næsta leik Þórsliðsins áður en landsliðið kemur saman fyrir leikina tvo í riðlakeppni Eurobasket. Að loknu landsleikjahléinu er svo næsti leikur liðsins heimaleikur gegn Stjörnunni laugardaginn 15. febrúar.