Fara í efni
KA

Þór/KA í úrslitaleik eftir í vítakeppni

Hulda Björg Hannesdóttir gefur tilfinningunum lausan tauminn eftir að hún kláraði dæmið fyrir Þór/KA og skoraði úr fjórða vítinu. Liðsfélagarnir streyma til hennar og fagna sætinu í úrslitaleiknum. Mynd: Skapti Hallgrímsson.

Þór/KA tryggði sér í kvöld sæti í úrslitaleik A-deildar Lengjubikars kvenna í knattspyrnu með sigri á Stjörnunni eftir vítaspyrnukeppni. Jafnt var eftir 90 mínútna leik, 1-1, en okkar konur í Þór/KA skoruðu úr fjórum vítum á móti tveimur vítum Stjörnukvenna. Þór/KA mætir Breiðabliki í úrslitaleik á Kópavogsvelli föstudaginn 28. mars kl. 18.

Stelpurnar í Þór/KA voru aðgangsharðari í upphafi leiks og raunar lengst af fyrri hálfleiknum, sóttu meira og héldu boltanum lengur, en færin komu þó ekki á færibandi. Margrét Árnadóttir skoraði eina mark fyrri hálfleiksins með hnitmiðuðu skoti vinstra megin úr teignum á 26. mínútu. Verðskulduð forysta Þórs/KA eftir fyrri hálfleikinn.

Margrét Árnadóttir skorar úr þriðja vítinu fyrir Þór/KA og fagnar brosandi. Boltinn endaði á nokkurn veginn sama stað í netinu í vítinu og í markinu sem Margrét skoraði í fyrri hálfleik. Mynd: Skapti Hallgrímsson. 

Gestirnir úr Garðabænum sóttu heldur í sig veðrið í seinni hálfleiknum og munaði þar nokkuð um fyrrum leikmann Þórs/KA, Andreu Mist Pálsdóttur, sem kom inn á í byrjun seinni hálfleiksins. Bæði lið börðust af krafti og reyndu hvað þau gátu að skora. Hrefna Jónsdóttir náði því markmiði þegar rúmar tíu mínútur voru liðnar af seinni hálfleiknum, skallaði þá í markið eftir darraðadans í teignum. 

Bæði lið komust í góðar stöður og þokkaleg færi þegar leið á seinni hálfleikinn, en hvorugu tókst að bæta við marki. Jessica Berlin varði vel í marki Þórs/KA undir lokin þegar Stjörnukonur gerðu sig líklegar til að stela sigrinum. 

Hulda Björg Hannesdóttir bar fyrirliðabandið í leiknum í kvöld í fjarveru Söndru Maríu Jessen. Hulda Björg skoraði af öryggi og kláraði verkefnið fyrir liðið sitt og tryggði sætið í úrslitaleiknum. Mynd: Skapti Hallgrímsson.

Tvö víti forgörðum hjá gestunum

Í Lengjubikarnum er ekki notast við framlengingu heldur farið beint í vítaspyrnukeppni. Stjörnukonur byrjuðu, Andrea Mist Pálsdóttir skoraði. Sonja Björg Sigurðardóttir tók fyrsta vítið fyrir Þór/KA. Vera Varis varði í marki Stjörnunnar, en dómarar leiksins létu endurtaka spyrnuna þar sem þeir töldu hana hafa farið af línunni áður en vítið var tekið. Sonja Björg tók vítið aftur og skoraði af öryggi.

Hulda Hrund Arnarsdóttir skoraði úr öðru víti Stjörnunnar, en Karen María Sigurgeirsdóttir svaraði um hæl. Næstu tvö víti Stjörnunnar fóru forgörðum, fyrst kom skot í slá og síðan framhjá. Reynsluboltarnir Margrét Árnadóttir og Hulda Björg Hannesdóttir skoruðu hins vegar af öryggi úr sínum vítum, niðurstaðan úr vítakeppninni 4-2 og Þór/KA þar með komið í úrslitaleikinn.

Leiksýrslan á vef KSÍ.

Einlægur fögnuður leikmanna Þórs/KA eftir að sætið í úrslitaleiknum var tryggt. Mynd: Skapti Hallgrímsson.