Fara í efni
KA

Daníel Andri þjálfari Þórs rær á önnur mið

Daníel Andri Halldórsson þjálfari kvennaliðs Þórs í körfubolta. Mynd: Skapti Hallgrímsson
Daníel Andri Halldórsson er hættur sem þjálfari kvennaliðs Þórs í körfuknattleik. Liðið tapaði fyrir Val í Reykjavík í kvöld, er þar með fallið úr úrslitakeppninni um Íslandsmeistaratitilinn og eftir leikinn var greint frá því að Daníel hefði tilkynnt stjórn körfuknattleiksdeildar Þórs ákvörðun sína. 
 
Daníel, sem er Þórsari í húð og hár, hefur verið yfirþjálfari yngri flokka félagsins undanfarin ár auk þess að stýra meistaraflokki kvenna. Hann tók þátt í að endurreisa kvennaliðið fyrir fjórum árum og hefur gert magnaða hluti með liðið; kom því upp í efstu deild, í úrslitaleik bikarkeppninnar á síðasta keppnistímabili, Þórsstelpurnar urðu Meistarar meistaranna í haust sem leið; lögðu þá bikarmeistara Keflavíkur í opnunarleik leiktíðarinnar, og Þór komst í úrslitakeppnina að þessu sinni þrátt fyrir fámennan hóp og meiðsli lykilmanna þegar leið á tímabilið.
 
Daníel var á dögunum ráðinn einn þriggja aðstoðar landsliðsþjálfara kvenna en ekki er ljóst við hvaða félagsliði hann tekur.