Fara í efni
KA

Mjög slæmt tap, naumt tap og jafntefli

Handboltalið bæjarins voru öll í eldínunni í gærkvöldi og uppskeran var rýr: KA steinlá fyrir Aftureldingu í Mosfellsbæ, Þór tapaði með eins marks mun fyrir Víkingi í Reykjavík og KA/Þór gerði jafntefli við Aftureldingu í Mosfellsbæ.

  • Afturelding - KA  33:22

KA-menn hafa tapað þremur fyrstu leikjunum í Olís deildinni, efstu deild Íslandsmótsins.

Mosfellingar voru þremur mörkum yfir í hálfleik, 17:14. „Ekki voru liðnar nema rúmlega fimm mínútur af síðari hálfleik þegar ljóst var að KA-menn virtust þá þegar ekki líklegir til afreka, komnir sjö mörkum undir, 22:15,“ segir í umfjöllun handboltavefs Íslands, handbolti.is. Þar segir einnig: „KA-menn reka lestina án stiga og verða alvarlega að hugsa sinn gang, ekki síst eftir frammistöðuna í síðari hálfleik í kvöld sem verður að teljast óviðunandi.“

Umfjöllun handbolta.is

Öll tölfræði leiksins 

  • Víkingur - Þór 32:31

Víkingur vann Þór í hörkuspennandi viðureign í fyrstu umferð Grill 66-deildar karla, næst efstu deild Íslandsmótsins.

Þórsarar höfðu tveggja marka forskot í hálfleik, 17:15, og voru fjórum mörkum yfir þegar 10 mín. voru liðnar af seinni hálfleik, en siðasta korterið var hnífjafnt og staðan 30:30 þegar þrjár mín. voru eftir.

Víkingar komust svo í 32:30 þegar nokkrar sekúndur lifðu leiks en Oddur Gretarsson minnkaði muninn með marki á lokasekúndunni. Nýliðinn Oddur var markahæstur Þórsara með 11 mörk. Hann kom heim í Þór í sumar eftir 11 ára farsælan feril sem handboltamaður í Þýskalandi. 

Öll tölfræði leiksins

Afturelding - KA/Þór 25:25

„Við fórum illa að ráði okkar eftir að hafa verið komin í góða stöðu í síðari hálfleik. Staðan var hinsvegar orðin þannig undir lokin að mér finnst það sýna karakter hjá leikmönnum að hafa þó náð öðru stiginu. Við vorum komin í bras,“ sagði Jónatan Magnússon þjálfari kvennaliðs KA/Þórs við handbolta.is eftir jafntefli við Aftureldingu, 25:25, í annarri umferð Grill 66-deildar kvenna í handknattleik að Varmá í gærkvöld. KA/Þór skoraði aðeins eitt mark síðustu 13 mínútur leiksins og missti niður fimm marka forskot og lenti m.a. marki undir.

Umfjöllun handbolta.is

Öll tölfræði leiksins