KA
Krossband slitið og Eva Rut ekki meira með
24.04.2025 kl. 08:00

Eva Rut Ásþórsdóttir, til vinstri, í búningi Þórs/KA gegn FHL í Kjarnafæðismótinu fyrir skömmu. Mynd: Ármann Hinrik
Knattspyrnukonan Eva Rut Ásþórsdóttir, leikmaður Þórs/KA, verður ekki meira með í sumar vegna meiðsla. Þetta er blóðtaka fyrir Þór/KA og Evu Rut að sjálfsögðu gífurleg vonbrigði.
Eva Rut, sem er 23 ára öflugur miðjumaður, gekk til liðs við Þór/KA frá Fylki fyrir leiktíðina. Hún varð fyrir því óláni að meiðast um miðjan fyrri hálfleik gegn Víkingi í 1. umferð Bestu deildarinnar og staðfesti við fótbolta.net í gær að krossband í hné hefði slitnað. „Ásamt því er hún með áverka á innra liðbandi og liðþófa, og einnig beinmar. Hún kemur til með að vera frá í rúmt ár,“ segir í frétt vefmiðilsins.
Þór/KA er eina liðið sem unnið hefur báða deildarleikina til þessa. Næsti leikur liðsins er gegn Val að Hlíðarenda á sunnudaginn kemur.