KA-Þór í kvöld – úrslit Kjarnafæðismótsins

KA og Þór mætast í kvöld í úrslitaleik Kjarnafæðismóts karla í knattspyrnu. Viðureignin fer fram á KA-vellinum (Greifavellinum) og hefst klukkan 18.00.
Knattspyrnudómarafélag Norðurlands heldur mótið á hverju ári sem lið í undirbúningi liða og dómara fyrir komandi tímabil.
Hefð er fyrir því að selt er inn á úrslitaleikinn og að ágóðinn af leiknum renni til góðgerðarmála. Að þessu sinni kostar 1.000 krónur inn, en frítt fyrir 12 ára og yngri, og í ár rennur allur ágóði af leiknum til uppbyggingar á stofum fyrir líknandi meðferðir á lyfjadeild Sjúkrahússins á Akureyri.
- A-deild Kjarnafæðimóts karla í knattspyrnu, úrslitaleikur
KA-völlur kl. 18
KA - Þór
Ganga má að því sem vísu að hart verður barist í kvöld. Vissulega er um æfingamót að ræða en mikilvægi leikja hefur ekki skipt máli síðustu áratugi þegar Akureyrarfélögin eigast við! KA hefur sigrað í Kjarnafæðismóti karla síðustu sjö ár og fróðlegt verður að sjá hvernig liðin koma undan vetri, ef svo má segja, að þessu sinni.
Úrslitaleikurinn í fyrra var skemmtilegur en kaflaskiptur. Þórsarar höfðu 2:0 forystu í hálfleik en KA jafnaði og tryggði sér sigur í vítaspyrnukeppni.
- Umfjöllun Akureyri.net um úrslitaleikinn í fyrra: KA geymir bikarinn 7. árið í röð