Fara í efni
KA

Brjálað veður og aurinn flaut yfir rist

Úrklippa úr Tímanum eftir fyrri úrslitaleikinn árið 1969. Skúli Ágústsson, sem verður heiðursgestur KA á úrslitaleiknum á morgun, er þarna með boltann.

KA-menn mæta Víkingum í úrslitaleik bikarkeppninnar í knattspyrnu á morgun og freista þess að vinna bikarinn í fyrsta sinn í sögu félagsins. Akureyringar hafa aðeins einu sinni orðið bikarmeistarar og síðan eru liðin hvorki meira né minna en 55 ár!

Í tilefni úrslitaleiksins á morgun er upplagt að rifja upp þá merkilegu stund þegar Akureyringar unnu bikarinn árið 1969. Liðsmynd af bikarmeisturunum var ein fyrsta gamla íþróttamyndin sem birtist á Akureyri.net þegar sá vikulegi liður hóf göngu sína og þá var sigurinn rifjaður upp, en aldrei er góð vísa of oft kveðin.

Ótrúlegar aðstæður

Það var Íþróttabandalag Akureyrar (ÍBA), sameiginlegt lið KA og Þórs, sem sigraði í bikarkeppninni árið 1969 eftir tvo úrslitaleiki við Íþróttabandalag Akraness (ÍA) við aðstæður sem þættu einkennilegar í dag – reyndar algjörlega óboðlegar og voru að reyndar líka þá, en menn voru öllu vanir á þeim árum. Leikið var til úrslita á gamla, góða Melavellinum í Reykjavík, malarvelli þar sem Þjóðarbókhlaðan stendur nú.

Í dag verður sagt frá fyrri leiknum og þeim síðari í fyrramálið.

Umfjöllun Þjóðviljans um fyrri úrslitaleik bikarkeppninnar árið 1969.

Frammistaða Íþróttabandalags Akureyrar á Íslandsmótinu um sumarið var ekki til að hrópa húrra fyrir. Meiðsli lykilmanna settu strik í reikninginn og Akureyringarnir urðu neðstir í A-deildinni en vegna þess að fjölga átti um eitt lið árið eftir – úr sjö í átta – mætti liðið Breiðabliki í aukaleikjum og hafði betur.

Í fyrri úrslitaleiknum gerði Guðjón Guðmundsson mark ÍA úr vítaspyrnu seint í fyrri hálfleik en fljótlega eftir leikhléð jafnaði Valsteinn Jónsson eftir aukaspyrnu Magnúsar Jónatanssonar.

Brjálað veður – leikmenn hlupu í skjól

„Aldrei hefur mótaleikur í knattspyrnu farið fram við aðrar eins aðstæður … Völlurinn var forarsvað, svo að aurinn flaut yfir rist, þegar stigið var niður. Rokið var 7-8 vindstig og gekk á haglhryðjum, svo miklum í síðari hálfleik, að dómarinn sá þann kost vænstan að gera hlé á leiknum og gefa leikmönnum kost á að komast í skjól,“ sagði Sigurdór Sigurdórsson blaðamaður í Þjóðviljanum eftir fyrri leikinn.

Eysteinn Guðmundsson línuvörður í fullum herklæðum og rúmlega það á Melavellinum. Aðstæður voru ekki upp á marga fiska eins og sjá má en voru mun verri þegar ÍBA og ÍA léku til úrslita. Eysteinn var einnig línuvörður þá og mætti í stígvélum til seinni hálfleiks!

Tæplega stundarfjórðungur var eftir af leiknum þegar Guðmundur Haraldsson dómari ákvað að gera hlé vegna hagléls, og voru leikmenn og dómarar í skjóli í um það bil 10 mínútur. Var þá ekki hundi út sigandi, hvað þá berleggjuðum knattspyrnumönnum, sagði Alþýðublaðið.

„Þetta var skelfilegt; það var kalsaveður, stíf norðanátt og eins og nálum væri stungið í fæturna á mönnum þegar haglélið skall á,“ sagði dómari leiksins, Guðmundur Haraldsson, í samtali við greinarhöfund við gerð bókarinnar Bikardraumar – Saga bikarkeppninnar í knattspyrnu í hálfa öld, sem kom út eftir að 50. keppnin fór fram árið 2009. „Þrátt fyrir kuldann voru allir á stuttbuxum, meira að segja dómaratríóið og ekkert vit í öðru en gera hlé á leiknum. Þegar élið hafði staðið í um það bil mínútu sagði ég mönnum að drífa sig inn í vallarhús og þá var ekki skokkað; menn tóku á sprett og einhverjir hafa eflaust hlaupið á mettíma!“ sagði Guðmundur.

Línuvörður í stígvélum

Rúmlega 2.000 áhorfendum er leikurinn án efa minniststæður, m.a. vegna haglélsins. Margir muna líka að annar línuvörðurinn, Eysteinn Guðmundsson, mætti í stígvélum til seinni hálfleiksins. Svo mikið var svaðið við hliðarlínuna að hann sá þann kost vænstan!

Útilokað var að framlengja fyrri úrslitaleikinn vegna myrkurs og nýr leikur því boðaður viku seinna. Þegar hann fór fram var milt veður, ákjósanlegt til knattspyrnuleiks, en völlurinn aftur á móti glerháll. Morgunblaðið og Þjóðviljinn voru ekki sammála um margt á sínum tíma, en voru á einu máli um að sigur Akureyringa í seinni úrslitaleiknum hefði verið sanngjarn.

  • Á MORGUN AKUREYRINGAR FENGU BIKARINN Í JÓLAGJÖF!

Umfjöllun Vísis eftir seinni úrslitaleikinn sem fram fór daginn áður, sunnudaginn 7. desember 1969.