Fara í efni
KA

Akureyringar fengu bikarinn í jólagjöf!

Bikarmeistarar Íþróttabandalags Akureyrar á Melavellinum árið 1969 eftir sigur á Akurnesingum. Mynd úr bókinni Bikardraumar, sem kom út árið 2009, eftir að keppnin fór fram í 50. skipti.

KA og Víkingur leika í dag til úrslita í bikarkeppni Knattspyrnusambands Íslands, Mjólkurbikarkeppninni, á Laugardalsvelli. Akureyringar hafa einu sinni orðið bikarmeistarar eins og áður hefur komið fram, þegar Íþróttabandalag Akureyrar (ÍBA), sameiginlegt lið KA og Þórs, sigraði Íþróttabandalag Akraness (ÍA) í úrslitum árið 1969.

Það var sögulegt einvígi því tvo úrslitaleiki þurfti í fyrsta skipti til að knýja fram úrslit auk þess sem aðstæður voru ótrúlegar miðað við það sem tíðkast í seinni tíð. Akureyri.net rifjaði fyrri leikinn upp i gær og nú er komið að þeim seinni, þegar ÍBA-kapparnir tóku á móti bikarnum á gamla, góða Melavellinum í Reykjavík, malarvelli þar sem Þjóðarbókhlaðan stendur nú. Bikarinn fór á loft sunnudaginn 7. desember. Já, desember!

Fréttir Morgunblaðsins og Tímans um þá árlegu samkomu á Austurvelli þegar kveikt er á jólatrénu sem er gjöf Oslóarborgar til Reykvíkinga. „Þrátt fyrir leiðinlegt veður var mikill mannfjöldi samankominn á Austurvelli þegar kveikt var á trénu ...“ sagði í Morgunblaðinu. Kveikt var á trénu á meðan úrslitaleikurinn vestur á Melavelli var í fullum gangi.

Hið besta jólaveður!

Hvorki fyrr né síðar hafa úrslit keppninnar ráðist jafn seint. Vert er að geta þess að sama dag og seinni úrslitaleikurinn fór fram var árleg samkoma á Austurvelli þar sem sendiherra Norðmanna afhenti borgarstjóranum í Reykjavík jólatréð frá Oslóarborg. „Létt snjókoma var þegar tréð var afhent og því hið besta jólaveður,“ sagði í dagblaðinu Tímanum! Morgunblaðið tók reyndar þannig til orða að þrátt fyrir leiðinlegt veður hefði mikill mannfjöldi verið á Austurvelli, en tilfinning fyrir veðri getur verið mjög teygjanleg, eins og Akureyringar vita, svo við látum þetta liggja milli hluta.

Eyjólfur Ágústsson jafnar 2:2 í seinni úrslitaleiknum með glæsilegum skalla eftir fyrirgjöf Valsteins Jónssonar. Mynd úr Morgunblaðinu.

Fyrri leiknum lauk með 1:1 jafntefli eins og fram kom í gær. Guðjón Guðmundsson mark ÍA úr vítaspyrnu seint í fyrri hálfleik en fljótlega eftir leikhléð jafnaði Valsteinn Jónsson eftir aukaspyrnu Magnúsar Jónatanssonar. ÍBA sigraði svo 3:2 í seinni leiknum.

Frammistaða Íþróttabandalags Akureyrar á Íslandsmótinu um sumarið var ekki til að hrópa húrra fyrir. Meiðsli lykilmanna settu strik í reikninginn og Akureyringarnir urðu neðstir í A-deildinni en vegna þess að fjölga átti um eitt lið árið eftir – úr sjö í átta – mætti liðið Breiðabliki í aukaleikjum og hafði betur. En þegar kom að bikarúrslitunum voru blöðin sammala um að sigur Akureyringa hefði verið mjög sanngjarn.

Akureyringar sækja að marki Skagamanna í seinni úrslitaleiknum. Mynd úr Alþýðublaðinu.

„Akureyringar voru vel að sigri yfir Skagamönnum komnir. Lengst af höfðu þeir undirtökin í viðureigninni. En málið horfði þó oft illa við, því þrátt fyrir mun betra og meira spil, fundu Akureyringar ekki leiðina í mark Akraness, en eldsnöggar sóknaraðgerðir Skagamanna færðu liðinu forystu þegar eftir 10 mín. leik og öðru marki bættu Skagamenn við snemma í síðari hálfleik,“ sagði Atli Steinarsson í Morgunblaðinu.

Úrklippa úr Tímanum 9. desember þar sem fjallað er um bikarmeistarana frá Akureyri.

Fyrra markið gerði Matthías Hallgrímsson, „brauzt einn í gegn af eigin rammleik og sparaði ekki kraftinn. Hið síðara skoraði Teitur Þórðarson. Náði hann að beina aðvífandi sendingu að markinu og inn fyrir línu fór skotið, þó laust væri, enda flughált í markinu.“

Teitur var 17 ára og þótti bráðefnilegur. Kjartan L. Pálsson segir í Tímanum að Matthías hafi hrint varnarmanni ÍBA frá sér og vippað knettinum yfir Samúel Jóhannsson markvörð. „Akureyringar voru hættulegri í fyrri hálfleik og tvívegis björguðu varnarmenn ÍA marki, í annað sinn föstum skallabolta frá Magnúsi Jónatanssyni á línu,“ sagði Kjartan.

Bikarmeistarar ÍBA 1969. Aftasta röð frá vinstri, Sævar Jónatansson, Valsteinn Jónsson, Eyjólfur Ágústsson, Skúli Ágústson og Gunnar Austfjörð. Miðröð frá vinstri, Númi Friðriksson, Þormóður Einarsson, Pétur Sigurðsson, Viðar Þorsteinsson og Gunnlaugur Björnsson. Fremsta röð frá vinstri, Kári Árnason, Samúel Jóhannsson, Magnús Jónatansson og Einar Helgason þjálfari.

... á glerhálum svellglotta

Útlitið virtist dökkt hjá Akureyringum, en nokkrum mínútum eftir mark Teits „eygðu Akureyringar vonina. Magnús Jónatansson minnkaði þá bilið með fallegu, viðstöðulausu skoti,“ eins og það var orðað í Morgunblaðinu. Fjórum mínútum síðan jafnaði svo Eyjólfur Ágústsson eftir fallega sókn. Haraldur M. Sigurðsson íþróttakennari lýsti því svo í samtali við Akureyrarblað Dag að Kári Árnason hafi náð boltanum „og setti á fulla ferð í átt að marki Akurnesinga, með tvo fótfráa Skagamenn á hælunum, og á glerhálum svellglotta gaf hann boltann nú allt í einu aftur fyrir sig til Valsteins [Jónssonar], sem þegar sendi hann til Eyjólfs [Ágústssonar], er skallaði með ágætum í vinstra horn marksins. Þessi samleikur þriggja manna var alveg meistaralegur og svo hnitmiðaður, að hvergi skeikaði, þótt aðstæður væru erfiðar.“

Umfjöllun Vísis um sigur Akureyringa í bikarkeppninni 1969.

Kári Árnason gerði sigurmark ÍBA snemma í framlengingu. Hann fékk sendingu inn fyrir vörnina frá Sævari Jónatanssyni, hljóp af sér varnarmenn og skaut í stöngina og inn. „Þetta mark kom vegna hálkunnar, þar sem varnarmenn ÍA runnu afturfyrir Kára þegar þeir fóru á móti,“ sagði Þjóðviljinn. „Eins og í upphafi segir var sigur Akureyringa fyllilega verðskuldaður og hann er þeim mikil uppreisn eftir allt mótlætið í sumar. Þeir voru fullir af sigurvilja og krafti í þessum leik og kunnu að leika miðað við aðstæður. Bestu menn liðsins í leiknum voru Magnús Jónatansson, Kári Árnason og Skúli Ágústsson og var Magnús að mínum dómi bezti maður vallarins.“

Frásögn á forsíðu Akureyrarblaðsins Dags af heimkomu bikarmeistaranna sunnudagskvöldið 7. desember 1969.

Kjartan L. Pálsson hreifst af leik fyrirliða ÍBA-liðsins, og sagði í Tímanum að ef Akureyringar ættu að þakka einhverjum einstökum leikmanni sigurinn, væri það Magnús fyrirliði: „Hann var áberandi bezti maður liðsins og vallarins, sívinnandi og ódrepandi í dugnaði sínum, leikmaður, sem hefði átt að fá tvo verðlaunapeninga fyrir sinn leik.“