Jóladagatalið 2022
Séra Svavar: Nokkur jólalög í uppáhaldi
14.12.2022 kl. 11:00
JÓLALAGIÐ MITT
Svavar Alfreð Jónsson, sóknarprestur í Akureyrarkirkju
- Ég á nokkur uppáhalds jólalög. Eitt helsta er hið sænska Koppången sem Per-Erik Moraeus samdi upphaflega fyrir fiðlu. Söngkonan Py Bäckman gerði undurfallegt ljóð við þetta dásamlega lag. Frumútgáfa þess var á plötu með söngkonunni Anne Sofie von Otter sem kom út árið 1999. Stuttu síðar keypti ég þessa plötu hjá Pálma í Tónabúðinni og síðan þá hef ég hlustað á það nokkrum sinnum fyrir hver jól til að finna jólaskapið. Py gerði líka enskan texta við lagið sem er að finna á plötunni. Mér finnst sænska útgáfan miklu betri, smellið hér til að hlusta á hana.
- Þegar ég var pínulítill var mér gefin jólaspiladós með þýska jólalaginu Leise rieselt der Schnee eftir prestinn og ljóðskáldið Eduard Ebel. Upp frá því var dósin alltaf dregin fram á aðventunni og sett inn í herbergið mitt. Ég man ekki eftir að hafa undirbúið mín bernskujól öðruvísi en í kompaníi við þessa friðsælu melódíu. Spiladósin virkar ekki lengur en lagið gerir það svo sannarlega. Hér er það í flutningi grísku söngkonunnar Nönu Mouskouri – en jólaplata með henni var oft spiluð á heimili mínu þegar ég var strákur. Smellið hér til að hlusta.
- Fátt finnst mér tengja mig jólahátíðinni betur en að syngja blessaða jólasálmana. Hinn alíslenski sálmur Nóttin var sú ágæt ein, ljóð séra Einars Sigurðssonar, prests í Heydölum sem Sigvaldi Kaldalóns gerði hrífandi lag við, er meðal þeirra sálma sem ég syng aldrei án þess að meyrna og finna trúarlampann tendrast. Hér er hann í flutningi Kristins Sigmundssonar og Mótettukórs Hallgrímskirkju. Smellið hér til að hlusta.