Fara í efni
Jóladagatalið 2022

Einlæg og lágstemmd jólatónlist fallegust

JÓLALAGIÐ MITT

Eyþór Ingi Jónsson, organisti í Akureyrarkirkju og stjórnandi Hymnodiu

Ég vinn í jólatónlist allt árið, að minnsta kosti eru sum árin þannig. Hef komið að upptökum á nokkrum jólaplötum og þá rennur þetta allt saman hjá mér.

Það er til ótrúlega mikið af fallegri jólatónlist, en ég er þó alltaf hrifnastur þegar hún er einlæg og lágstemmd. Jólatónleikar Hymnodiu, sem að þessu sinni eru í Akureyrarkirkju næsta fimmtudag, 22. desember,  eru á hverju ári fullkomið safn jólatónlistar,  en ég get ekki gert upp á milli allra þeirra fallegu jólalaga sem við höfum flutt. Ég ætla því að nefna fjölskylduna á Tjörn í Svarfaðardal vegna þess að ég hrífst mjög af jólatónlistarhefð hennar.

Jólaplata Tjarnarkvartettsins er frábær. Kristjana Arngrímsdóttir vinkona mín, var í þeim kvartett, hefur gefið út frábæra jólatónlist og ég vel sem mitt uppáhalds jólalag Stjarnanna fjöld, sem er eftir hana. Dásamlegt lag og það vill svo vel til að við Kristjana erum einmitt með tónleika í kvöld, sunnudagskvöld, í Bergi á Dalvík þar sem þetta yndislega lag verður flutt. Smellið hér til að hlusta á lagið.

Þá hafa börn Kristjönu og Kristjáns Eldjárns Hjartarsonar, Ösp, Örn og Björk, flutt ólýsanlega fallega jólatónlist og Brother Grass (Örn, Ösp og fleiri) platan er að mínu mati einhver besta jólaplata sem hefur verið gefin út.

Hér er Brother Grass platan í heild.