Fara í efni
Jóladagatalið 2022

Ótal jólalög tengjast ljúfum minningum

JÓLALAGIÐ MITT

Hafdís Bjarnadóttir kennari

Ég taldi mig nú ekki eiga nein sérstök uppáhalds jólalög, þangað til ég var beðin um að nefna þrjú, þá komst ég að því þetta er hörð samkeppni því ég á ótal uppáhalds jólalög sem flest tengjast þó ljúfum minningum sem eru kannski frekar í uppáhaldi heldur en lögin sjálf.

Fyrst lagið, eða sálmurinn er t.d. ekkert í sérstöku uppáhaldi en minningin sem hann tengist er mér mjög kær. Þegar ég var barn þá sóttu föður amma og afi okkur barnabörnin annan hvern sunnudag og amma fór með okkur í sunnudagaskóla í Zíon. Það var mikill metnaður að mæta þótt við værum oft dragúldin því fyrir mætinguna fengum við gull- eða silfur stjörnur og þegar maður var búinn að safna ákveðnum fjölda fengum við að velja jesúmynd sem maður safnaði í lítið veski. Eftir að ég fullorðnaðist varð ég svo ótrúlega þakklát fyrir þessar samverustundir með ömmu minni og frændsystkinum og þegar ég heyri sálminn Nóttin var sú ágæt ein þá hlýnar mér í hjartanu og hugurinn reikar í Zíon. Smellið hér til að hlusta á Jóhönnu Guðrúnu flytja lagið á Jólagestum Björgvins 2017 og hér til að hlusta á Kristin Sigmundsson syngja þetta fallega lag ásamt Mótettukór Hallgrímskirkju.

Næsta lag, Last Christmas, kom út árið 1986 og síðustu ár hefur stór hópur látið það fara ægilega mikið í taugarnar á sér og forðast að heyra það eins og heitan eldinn. Ég botna nú ekkert í því enda lagið stórkostlegt og ekki var myndbandið sem fylgdi síðra. Það var auðvitað tekið upp á vídeóspólu og ég horfði á það aftur og aftur enda þeir WHAM bræður sjúklega sætir og sagan hádramatísk ástarsaga sem fékk hverja unglingstúlku til að tárast og kikna í hnjánum til skiptis. Smellið hér til að hlusta.

Síðasta lagið, Styttist í það, eru sannkallað stuðlag með snillingunum í Baggalút og Bryndísi Jakobs. Lagið er auðvitað ítalskt að uppruna, eins og svo mörg önnur, en það er svakalegt stemningslag sem fær mann til að gleyma rykhnoðrum og henda frekar upp upp seríum, hnoða í smákökur, fá sér kakóbolla og njóta því til þess eru jú jólin. Góð og gleðileg jól eins og þeir Baggalútar segja. Smellið hér til að hlusta.