Erum smituð af skæðum jólatónlistarvírus
JÓLALAGIÐ MITT
Haraldur Þór Egilsson, safnstjóri Minjasafnsins á Akureyri
Uppáhaldslögin sem ramma inn jólin eru breytileg eftir tíð og tíma. Tíð segi ég því ég byrja að hlusta á jólalög í lok október! Svona smá. … Ok, mikið. Svo hef ég smitað stelpurnar mínar af þessum skæða jólatónlistarvírusi því við erum öll farin að hlusta aðeins of snemma en samt á sama tíma. Er þetta ekki „too much“ gæti einhver sagt. Nei aldeilis ekki. Það er til svo mikið af jólalögum og eiginlega allir og amma hans hafa skellt í eina jólaplötu eða tvær. Já ég sagði tíma líka. Auðvitað breytist eftir aldri hvaða lög manni finnast skemmtilegust en líka eftir því sem nær dregur jólum.
Það sem alltaf ratar í eyrun eða á fóninn þessi árin eru þessi lög. Smellið á rauða letrið til að njóta.
1. Notalegt – Sigríður Thorlacius og Sigurður Guðmundsson. Eyrnakonfekt og notaleg stemning í laginu enda flutt af eintómum snillingum. Það er eitthvað svo mikil Akureyrarstemning í þessu lagi þó Sigurður vilji ekki meina að hann hafi samið það um Akureyri. Ég er viss um að ég hef séð köttinn í Innbænum sem sungið er um í Innbænum á Akureyri. Er til einhver annar Innbær? Myndbandið sem fylgir laginu er einstaklega snoturt enda Rán Flygering einstaklega hæfileikarík.
2. Frostið – Brother Grass. Jólaplata Brother Grass er í algjöru uppáhaldi. Það fylgir jólahaldinu að fara á eina eða fleiri tónleika. Ég kynntist þessari tónlist eftir að ég fór á ógleymanlega tónleika með þeim á Græna hattinum fyrir mörgum árum. Ég held að þetta hafi jafnvel verið síðustu tónleikar hljómsveitarinnar. Þau voru jafn geislandi á sviðinu og á plötunni. Lagið og textann gerðu Katrín Sif Ingvarsdóttir og Örn Eldjárn. Lífið er ljúfast í desember…
3. The Day that Love Began – Jólaguðspjallið söng Stevie Wonder. Stevie Wonder hefur sungið mörg frábær jólalög, Someday at Christmas, Its Christmas time, One little Christmas Tree. Lagið og textinn eru eftir Ron Miller og Deborah Ann Miller.
4. Jólakvöld – Sigríður Thorlacius. Ljóðin hans Davíðs Stefánssonar verða mörgum efniviður í lagasmíð. Ein af mínum uppáhalds jólaplötum er plata Sigríðar Thorlacius, Jólakveðja. Þetta er plata sem verðskuldar meiri athygli með frábærum lagasmíðum Bjarna Frímanns Bjarnasonar og Guðmundar Óskars Guðmundssonar. Þar á meðal er afar fallegt lágstemt lag við ljóð Davíðs Stefánssonar, Jólakvöld sem Sigríður syngur með sinni mildilegu rödd. Kannski við notum lagið sem upphafslag á Litlu ljóðahátíðinni sem verður í Davíðshúsi 9.-10. desember?
5. Majones jól – Bogomil Font. Lagið er af samnefndri plötu með Stórsveit Reykjavíkur og Bogomil Font og varð uppáhaldsplata fjölskyldunnar um leið og hún kom út. Hvernig er annað hægt! Skemmtilega grúví plata og húmorinn ekki langt undan. Tengi bæði við húmorinn og átið í textanum sem er að ég held eftir Sykurmolann Sigtrygg Baldursson. Svo söng yngsta dóttirin þetta í ónefndri söngkeppni og vann.
Hvað segirðu annars, áttu þetta bara að vera þrjú lög? Nú, bara eitt?