Fara í efni
Jóladagatalið 2022

Bestu jólalögin nánast aldrei í útvarpinu

JÓLALAGIÐ MITT

Haukur Tryggvason, vert á Græna hattinum

Mér fannst það nokkuð skrýtið að það skuli leitað til mín til að velja bestu jólalögin því ég er ekki mikið fyrir þau, svona almennt. En þó eru til frábær jólalög, en það er eins og þau heyrist aldrei í útvarpinu, það eru alltaf sömu lögin sem eru spiluð aftur og aftur.

Af þessum góðu dettur mér fyrst í hug lag af plötu Brother Grass sem kom út fyrir 10 árum síðan og heitir einfaldlega Jól. Lagið heitir einnig Jól og er eftir Örn Eldjárn, textinn er svo eftir Brother Grass og Kristján Eldjárn Hjartarson, annars er platan öll alveg frábær. Yndisleg lög og frábær söngur hjá þeim Hildi Halldórs, Söndru Dögg, Soffíu Björgu, Ösp og Erni Eldjárn. Smellið hér til að hlusta á lagið.

Annað uppáhald ætti ekki að koma neinum, sem þekkir mig, mikið á óvart, What I really want for Christmas af samnefndri plötu Brian Wilson og það er eins og áður, það er erfitt að velja eitt lag úr, þau eru bara öll frábær. Þetta lag er eftir Brian sjálfan og Bernie Taupin sem er helst þekktur sem textahöfundur Elton John. Smellið hér til að hlusta á lagið.

Svo verð ég að lokum nefna eina af mínum uppáhalds jólaplötum sem er Nú stendur mikið til með Sigurði Guðmundssyni og Memfis mafíunni. Sérstaklega vel heppnuð og heilsteypt jólaplata. Hér er hægt að hlusta á plötuna alla.