Fara í efni
Íþróttamaður Akureyrar

Baldvin Þór bætti 44 ára gamalt Íslandsmet

Baldvin Þór Magnússon eftir að hann setti Íslandsmetið í dag. Ljósmynd: FRÍ/Hlín Guðmundsdóttir

Bald­vin Þór Magnús­son úr Ungmennafélagi Akureyrar bætti í dag 44 ára gam­alt Íslands­met í 1.500 metra hlaupi innanhúss. Hann fór vegalengdina á 3 mínútum, 41,05 sekúndum á Reykjavíkurleikunum. Baldvin vann hlaupið, kom í mark tæpri sekúndu á undan Norðmanninum Håkon Berg Moe sem hljóp á 3:41,56. 

Jón Diðriksson átti Íslandsmetið – 3:45,6 mín. Baldvin bætti því met Jóns um hvorki meira né minna en fjórar sekúndur. Metið setti Jón 1. mars árið 1980 á móti í Sindelfingen í Vestur-Þýskalandi.

Baldvin á nú Íslandsmet í fjórum hlaupagreinum innanhúss: í 3000 m, 5000 m og míluhlaupi.

Endasprettur Baldvins Þór í dag var frábær. Keppni á Reykjavíkurleikunum var í beinni útsendingu RÚV; smellið hér til að horfa á lýsingu Sigurbjörns Árna Arngrímssonar á síðasta hluta methlaups Baldvins Þórs.