Fara í efni
Íþróttamaður Akureyrar

Glæsilegur sigur Þorbergs Inga í Sviss

Þorbergur Ingi Jónsson kemur í mark í Sviss í dag. Myndir af heimasíðu hlaupsins.

Ofurhlauparinn Þorbergur Ingi Jónsson sigraði með glæsibrag í 71,8 kílómetra utanvegahlaupi í Sviss í dag við erfiðar aðstæður. Hlaupið var um fjöll og firnindi og skv. heimasíðu hlaupsins var hækkun 3615 metrar og hluta leiðarinnar snjóaði.

Ekki nóg með að Þorbergur sigraði af miklu öryggi í flokki 40-44 ára heldur kom hann lang fyrstur allra í mark; hljóp vegalengdina á 6 klukkustundum, 47 mínútum og 52 sekúndum.  Heimamaðurinn Lucas Nanchen, sem keppir í flokki 20-34 ára, varð í öðru sæti í heildarkeppninni, kom í mark tæplega sex mínútum á eftir Þorbergi Inga. 

Hlaupið er hluti af UMTB, þekktri og virtri röð ofurhlaupa á svæðinu við Mont Blanc, hæsta fjall Alpanna.

Þátttakendur í dag voru 828. Keppni hófst í Kandersteg og lauk í Crans Montana.

  • Smellið hér til að sjá stutt myndband af Þorbergi að koma í mark. Myndbandið er af Instagram reikningi mótaraðarinnar.
  • Á heimasíðu mótsins má sjá að meðalhraði Þorbergs Inga í dag voru 10,5 kílómetrar. Smellið á myndina hér að neðan til að sjá ýmsar aðrar upplýsingar um hlaupið.