Aldís og Brynjar kosin íþróttafólk ársins
Knattspyrnumaðurinn Brynjar Ingi Bjarnason úr KA er íþróttakarl Akureyrar 2021 og skautakonan Aldís Kara Bergsdóttir úr SA er íþróttakona Akureyrar 2021.
Rut Arnfjörð Jónsdóttir, handboltakona úr KA/Þór, og Jóhann Gunnar Finnsson, fimleikamaður úr FIMAK, urðu í öðru sæti í kjörinu og í þriðja sæti þau Arna Sif Ásgrímsdóttir, knattspyrnukona úr Þór/KA og Baldvin Þór Magnússon, frjálsíþróttamaður úr UFA.
Þetta er þriðja árið í röð sem Aldís Kara er kjörin íþróttakona Akureyrar en Brynjari Inga hlotnast nafnbótin í fyrsta skipti.
Kjörinu var lýst í verðlaunahófi á vegum Íþróttabandalags Akureyrar og fræðslu- og lýðheilsuráðs Akureyrarbæjar í menningarhúsinu Hofi í dag. 12 aðildarfélög ÍBA tilnefndu alls 32 íþróttamenn úr sínum röðum, 15 íþróttakonur og 17 íþróttakarla. Úr þeim tilnefningum var svo kosið á milli 10 karla og 10 kvenna sem stjórn Afrekssjóðs Akureyrar hafði stillt upp.
Í tilkynningu frá ÍBA segir um íþróttafólk ársins:
„Aldís Kara, sem var valin skautakona ársins 2021 hjá Skautasambandi Íslands og íþróttakona Skautafélags Akureyrar, setti Íslandsmet í janúar 2021 þegar hún hlaut 123.44 stig á RIG21. Í haust keppti Aldís á tveimur ISU Challenger Series mótum. Með góðum árangri á þessum mótum vann Aldís Kara sér inn keppnisrétt á Evrópumeistaramóti í listskautum, fyrst íslenskra skautara. Á Evrópumeistaramótinu, sem fór fram í Eistlandi í janúar 2022 hafnaði Aldís Kara í 34. sæti. Aldís Kara lauk árinu 2021 með því að slá eigið Íslandsmet á Íslandsmeistaramótinu sem haldið var í nóvember. Þar hlaut hún 136.14 stig sem er jafnframt hæstu stig sem gefin hafa verið í Senior flokki [fullorðinsflokki] á Íslandi.
Brynjar Ingi er íþróttakarl Akureyrar í fyrsta skipti. Brynjar Ingi er uppalinn knattspyrnumaður úr KA og var valinn, annað árið í röð, íþróttakarl KA í byrjun árs. Brynjar Ingi spilaði 11 leiki fyrir KA sem hafnaði í 4. sæti í efstu deild karla 2021. Frammistaða Brynjars Inga vakti mikla athygli og í júlí var Brynjar Ingi keyptur til Lecce í ítölsku B-deildinni. Með framgöngu sinni vann Brynjar Ingi sér inn fast sæti í A-landsliði karla á árinu, þar sem hann spilaði 10 A-landsleiki [ ... ] og skoraði tvö mörk. Í lok árs 2021 færði Brynjar Ingi sig um set, frá Ítalíu til norska úrvalsdeildarliðsins Vålerenga.“
- Við athöfnina í dag veitti frístundaráð Akureyrarbæjar viðurkenningar til 10 aðildarfélaga ÍBA vegna 310 Íslandsmeistara á síðasta ári.
- Afrekssjóður veitti 10 ungum íþróttamönnum styrki og fimm efstu í kjöri íþróttakarls og íþróttakonu Akureyrar hlutu einnig fjárstyrk; samtals hlutu 20 manns því afreksstyrki, alls rúmlega fimm milljónir króna.
Hvaða íþróttafólk skaraði fram úr í fyrra?
Á sviðinu í Hofi í dag; Aldís Kara Bergsdóttir og foreldrar Brynjars Inga Bjarnasonar, Bjarni Áskelsson og Anna Rósa Magnúsdóttir. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.