Fara í efni
Íslandskortasafn Schulte

Lítil loggbók en stórmerkileg heimild

Úr loggbók Guðrúnar. Guðrún lauk A-prófi í svifflugi í júlí 1946. Um þremur vikum síðar, nánar tiltekið 17. ágúst 1946, lauk Valgerður Þorsteinsdóttir sóló-prófi í vélflugi fyrst kvenna.

SÖFNIN OKKAR – XLIX

Frá Flugsafninu á Akureyri_ _ _

Akureyri.net heldur áfram að opna dyr safnanna í bænum lesendum til fróðleiks og skemmtunar. Það er gert vikulega, á fimmtudögum.

Í síðustu viku sagði Akureyri.net frá því þegar Arngrímur Jóhannsson flugstjóri flaug sitt síðasta svifflug, 70 árum eftir það fyrsta. Líkt og Arngrímur voru margir flugkapparnir sem hófu flugmannsferil sinn í sviffluginu, og oft hafa þeir lofað þau undirstöðuatriði sem þeir lærðu í sviffluginu sem nýttust þeim síðar við að fljúga stærri og flóknari flygildum.

Safngripur vikunnar er að þessu sinni einmitt tengdur sviffluginu og Svifflugfélagi Akureyrar, sem stofnað var árið 1937.

Lengst af fór minna fyrir konum en körlum í íslensku flugi, en Guðrún Þórhallsdóttir er ein af þeim sem lét snemma til sín taka í sviffluginu og er talin fyrsta konan til þess að ljúka flugprófi á Íslandi.

Guðrún um borð í Grunau IX.  Flugsafn Íslands/Mynd úr fórum Guðrúnar Þórhallsdóttur.

Á Flugsafni Íslands er loggbók Guðrúnar varðveitt og þó bókin láti lítið yfir sér þá er hún stórmerkileg heimild um brautryðjandann og svifflugkonuna.

Guðrún Þórhallsdóttir fæddist 24. október 1925 að Hrafnagili í Eyjafirði. Þann 21. júlí 1945, þá tæplega tvítug, flaug hún fyrst Grunau IX renniflugu Svifflugfélags Akureyrar og rúmu ári síðar lauk hún A-prófi í svifflugi á Melgerðismelum.

Flest flug Guðrúnar voru á renniflugunni Grunau IX en einnig flaug hún nokkur flug á Schweizer TG-3A, TF-SBA. Báðar þessar svifflugur eru til sýnis í Flugsafninu.

Guðrún tók sæti í stjórn Svifflugfélags Akureyrar árið 1945 og var gjaldkeri félagsins í um tvö ár. Samkvæmt logbók Guðrúnar flaug hún sitt síðasta svifflug 3. nóvember 1946 en hún fluttist til Reykjavíkur og hóf nám við Handíða- og myndlistaskólann í Reykjavík árið 1947. Síðar gerðist Guðrún myndmenntakennari og fékkst við myndlist og handverk. Hún lést 3. janúar 2015.

Loggbók Guðrúnar Þórhallsdóttur // Flugsafn Íslands

Heimildir:

Morgunblaðið, 13. janúar 2015 - https://timarit.is/page/6332238?iabr=on

Íslendingur, 26. júlí 1946 - https://timarit.is/page/5161696?iabr=on

Dagur, 24. ágúst 1996 - https://timarit.is/page/2716696?iabr=on

Guðrún Þórhallsdóttir. Flugsafn Íslands/Mynd úr fórum Guðrúnar Þórhallsdóttur.