Fara í efni
Íslandskortasafn Schulte

Boðungamerki frá skólahátíðinni 1930

SÖFNIN OKKAR – 53

Frá Minjasafninu á Akureyri_ _ _

Akureyri.net heldur áfram að opna dyr safnanna í bænum lesendum til fróðleiks og skemmtunar. Það er gert vikulega, á fimmtudögum.

Dagana 31. maí og 1. júní 1930 var mikil skólahátíð á Möðruvöllum í Hörgárdal og á Akureyri sem lengi var í minnum höfð. Tilefni hátíðarhaldanna var af tvennum toga: annars vegar fagnaði Gagnfræðaskólinn á Akureyri 50 ára afmæli en hann var stofnaður á Möðruvöllum í Hörgárdal árið 1880. Hins vegar var stofnunin nú formlega orðin að menntaskóla og breyttist nafnið þá í Menntaskólinn á Akureyri.

Gagnfræðaskólinn var fyrstu árin á Möðruvöllum en skólahúsið þar brann árið 1902 og var skólinn þá fluttur til Akureyrar. Fyrri dagur hátíðarhaldanna fór fram á Möðruvöllum og voru meðal annars nýstúdentar brautskráðir á rústum Möðruvallaskólans. Daginn eftir héldu hátíðarhöldin áfram á Akureyri og stóðu fram á nótt. Dagurinn hófst með mikilli skrúðgöngu þar sem fremst gengu kennarar og nýstúdentar. Á eftir þeim fylgdu eldri árgangar gagnfræðinga bæði frá Möðruvöllum og Akureyri, allt frá 1880 til 1930 og gengu þeir undir skiltum með útskriftarártölum sínum.

Við leiði Jóns A. Hjaltalín skólameistara í kirkjugarðinum á Akureyri. Sigurður Guðmundsson skólameistari er hægra megin á myndinni með blómsveig í hendi.

Að þessu sinni er safngripur vikunnar barmmerki frá skólahátíðinni 1930 sem varðveitt er á Minjasafninu á Akureyri. Merkið er úr silki með bláum borðum og gylltri stjörnu sem liggur á hvítum tígullaga fleti. Á merkinu má lesa ártölin 1880 og 1930 og vísa þau til 50 ára afmæli skólans. Þetta merki fengu hátíðargestir og báru þeir það flestir í jakkaboðungnum eða barminum. Töluvert er til af ljósmyndum frá hátíðarhöldunum, enda bæði merkileg tímamót og umfangsmikið samkvæmi sem vert þótti að festa á filmu. Á sumum ljósmyndum má greinilega sjá merkið í jakkaboðungi fólks.

Merkið er byggt á eldra merki sem búið var til þegar Möðruvallaskólinn fagnaði tuttugu ára afmæli árið 1900. Hönnuður þess var Stefán Stefánsson þáverandi kennari skólans og síðar skólameistari Gagnfræðaskólans á Akureyri. Það var eilítið minna í sniðum og borðarnir styttri, en á endum þess voru ártölin 1880 og 1900. Gyllta stjarnan var alveg eins en hvíti flöturinn hringlaga.