Fara í efni
Íslandskortasafn Schulte

Dauðadómur í Davíðshúsi

Bókin Dauðadómurinn, sem nýlega kom út, verður kynnt í Davíðshúsi í kvöld, fimmtudagskvöld, og hefst dagskráin kl. 20.00.

Sjöundármálið er eitt af frægustu sakamálum Íslandssögunnar þar sem Bjarni Bjarnason og Steinunn Sveinsdóttir voru dæmd til dauða fyrir morð á mökum sínum, Jóni og Guðrúnu. Þessu fólki hefur margsinnis verið lýst út frá sjónarhóli yfirvalda.

„Sjónarhornið er óvenjulegt í bókinni Dauðadómurinn eftir Steinunni Kristjánsdóttur. Þar segir hinn dæmdi, Bjarni Bjarnason frá Sjöundá, sjálfur frá æviskeiði sínu um leið og lífshlaup hans er tengt við tíðaranda 18. aldar. Frásögnin endar á aftöku Bjarna í Kristiansand í Noregi,“ segir í tilkynningu.

Dr. Steinunn Kristjánsdóttir, prófessor í fornleifafræði við Háskóla Íslands, les í kvöld valda hluta úr bókinni sem byggir á rannsókn hennar á aftökum eftir siðaskipti á Íslandi. Eftir Steinunni liggja verðlaunabækurnar Sagan af klaustrinu á Skriðu (2012) og Leitin að klaustrunum (2017) sem Sögufélag gaf út. Þá gaf Routledge út bók hennar Monastic Iceland (2023). Háskólaútgáfan gefur út bókina Dauðadómurinn.

Bókin verður til sölu með 20% afslætti. Posi á staðnum, segir í tilkynningu frá Minjasafninu.