Skíðað í Hlíðarfjalli og fyrsta stólalyfta á Íslandi

SÖFNIN OKKAR – 62
Frá Minjasafninu á Akureyri_ _ _
Akureyri.net heldur áfram að opna dyr safnanna í bænum lesendum til fróðleiks og skemmtunar. Það er gert vikulega, á fimmtudögum.
Akureyringar hafa rennt sér á skíðum um langa hríð enda stutt í brekkur og sjaldan skortur á snjó. Þær voru því upplagðar til skíðaiðkunar, ekki síst fyrir krakka, sem renndu sér t.d. niður Skátagilið í miðbænum. Þá fór fram skíðastökk í Skammagili sunnan við Minjasafnið, meira um það síðar. Það var hins vegar Fjallið sem togaði mest.
Hlíðarfjall ofan við Akureyri hefur verið eitt helsta skíðasvæði landsmanna í marga áratugi. Upp úr 1920 fór að bera á auknum áhuga bæjarbúa á skíðaíþróttinni. Árið 1931 var reistur skíðaskáli á Súlumýrum á austurbrúnum Glerárdals. Var honum gefið viðeigandi nafn og nefndur Skíðastaðir. Mun hann hafa verið annar sinnar tegundar hér á landi. Skálinn var endurnýjaður árið 1936 og stækkaður.
Aukinn áhugi á skíðaíþróttum varð til þess að aðstaðan í Hlíðarfjalli var byggð enn frekar og árið 1962 var tekið í notkun skíðahótel sem enn stendur í dag þó ekki sé þar lengur hótelrekstur. Hótelið fékk einnig nafnið Skíðastaðir og var reist úr viðum gamla Sjúkrahússins sem stóð við Spítalaveg.
Þremur árum síðar fékk Akureyri viðurkenningu frá ÍSÍ sem miðstöð vetraríþrótta á Íslandi. Þá þekktust einungis toglyftur og þrátt fyrir að þær auðvelduðu skíðagestum að komast upp brekkurnar þá voru þær að ýmsu leyti ekki mjög hentugar. Því var tekin ákvörðum árið 1966 um að Akureyrbær myndi festa kaup á stólalyftu fyrir Hlíðarfjall. Hermann Sigtryggsson íþróttafulltrúi Akureyrar og Pétur Bjarnason verkfræðingur fóru út snemma árs 1967 og völdu lyftuna.
Lyftan var keypt frá Austurríki og hafist handa við uppsetningunna hennar í Hlíðarfjalli um sumarið. Hún var svo vígð 2. desember sama ár við hátíðlega athöfn og var saman komin fjöldi manns til þess að virða fyrir sér nýjasta íþróttamannvirki bæjarins. Barbara Geirsdóttir, ung og efnileg skíðakona klippti á borða og opnaði þar með lyftuna. Þeir fyrstu sem fóru með lyftunni voru Björgvin Júníusson fyrrum Íslandsmeistari í svigi og Hermann Stefánsson íþróttakennari.
Merkum áfanga var náð í skíðasögu landsins og þótti nýja lyftan mikil bylting fyrir skíðafólk, einkum hvað varðaði afkastagetu svæðisins en einnig átti hún að auka bæði þægindi og öryggi. Lyftan var tveggja sæta, um 1000m löng og tók ferðin um 7–8 mínútur. Gat hún ferjað allt að 580 manns á klukkustund. Síðar bættust við fleiri toglyftur og eru þær enn notaðar í dag, en aðbúnaður þeirra hefur breyst til batnaðar frá fyrri tíð. Stólalyftan var í notkun næstu áratugina eða til ársins 2001 þegar ný og stærri lyfta með meiri afkastagetu var tekin í notkun. Þá var önnur stólalyfta vígð árið 2022 og eru í dag alls sjö skíðalyftur í Hlíðarfjalli ásamt einu færibandi/töfrateppi.
Fleiri myndir og skíðabúnað má sjá á örsýningu Minjasafnsins á Glerártorgi.