Glæsilegt módel af Geysi – TF-RVC – á Flugsafninu

SÖFNIN OKKAR – 65
Frá Flugsafninu á Akureyri_ _ _
Akureyri.net heldur áfram að opna dyr safnanna í bænum lesendum til fróðleiks og skemmtunar. Það er gert vikulega, á fimmtudögum.
Á sýningu Flugsafnsins um flugfélagið Loftleiðir stendur glæsilegt módel af DC-4 Skymaster flugvél félagsins, TF-RVC Geysi.
Geysir kom til landsins árið 1948 og var önnur millilandaflugvélin sem Loftleiðir festu kaup á. Hún brotlenti á Vatnajökli 14. september 1950. Flugvélin var á leið til Íslands frá Lúxemborg í fraktflugi og því einungis áhöfn um borð. Næstu daga beið þjóðin milli vonar og ótta meðan gerð var umfangsmikil leit að flugvélinni. Þann 19. september bárust síðan þau gleðitíðindi að Geysir væri fundinn og öll áhöfnin væri á lífi.
Gerður var út björgunarleiðangur til að komast að slysstaðnum. Voru þar Akureyringar fremstir í flokki en þeir unnu mikið þrekvirki við að ná til áhafnarinnar og koma henni niður af jöklinum. Um það mátti lesa í fjölmiðlum næstu daga á eftir, m.a. í Tímanum 22. september með yfirskriftinni: Jökulför Akureyringa. Dugnaður og skipulag einkenndi leiðangurinn.
En þá að módelinu sjálfu. Eigandi þess er Kristján Víkingsson tannlæknir og eigandi Flugskóla Akureyrar. Hann er jafnframt einn af stjórnarmönnum Flugsafnsins.
Módelið, sem er í stærðinni 1:8, smíðaði Birgir Sigurðsson og hjólabúnaðinn smíðaði Ásgeir Runólfsson. Hefur það vakið mikla athygli safngesta og margir sem hafa komið sérstaklega til að berja það augum. Hægt er að sjá það á flugi
Safngestum gefst áfram tækifæri til að skoða gripinn, því þegar Loftleiðasýningin verður tekin niður í maí í núverandi mynd verður sett upp sýning um Geysisslysið í júní í tilefni af því að 75 ár eru liðin frá slysinu og giftusamlegri björgun áhafnarinnar.
Hér má sjá þegar módelinu var flogið í fyrsta skipti: https://youtu.be/P02fmgbemII?si=98312b7sLLzj7hIc
Dugnaður og skipulag
Forsíða dagblaðsins Tímans föstudaginn 22. september 1950.
Framganga leiðangursins frá Akureyri við björgun fólksins af jöklinum er mjög rómuð af öllum. Allt var skipulagt svo sem bezt varð á kosið og svo vel séð fyrir öllu, að ekki virtist minnsta atriði hafa gleymst. Var þó til björgunarleiðangursins stofnað í miklum flýti. Dugnaður Akureyringanna var líka frábær, og einn þeirra var um það bil 24 klukkutima á jöklinum, en annar hart nær jafn lengi.
Í för með Akureyringum voru nokkrir menn úr Reykjavík, sem dvalið höfðu um tíma norðan Vatnajökuls, og slógust í fylgd með Akureyringum á Akureyri, er fréttist um fund Geysis. Fóru sumir Reykvíkinganna einnig á jökulinn og áttu góðan hlut að björgunarstarfinu.
Nánar má lesa frásögn Tímans á timarit.is – smellið á úrklippuna úr blaðinu hér að ofan til að sjá blaðið.