Fara í efni
Héraðsskjalasafnið

Myndrænn ilmur af iðnaði á Minjasafninu

Ljósmynd: Minjasafnið á Akureyri/Gunnlaugur P. Kristinsson

Akureyri ilmaði af iðnaði áratugum saman. Bæjarbúar, einkum og sérílagi Eyrarpúkar, vöknuðu við súkkulaðiangan úr Lindu við Hvannavelli,  kaffi barst inn um nefið þegar brennt var við Furuvelli og Sana, spottakorni neðar á Eyrinni, bauð upp á ilm af brugguðu öli. Gott ef Akra karamellur lágu ekki líka í loftinu, svo ekki sé minnst á peningalyktina úr Krossanesi. Allt eftir því hvernig vindurinn blés. Þá var að vísu sjaldnast talað um ilm ...

Margir muna þann mikla iðnaðarbæ sem Akureyri var og í dag verður opnuð ljósmyndasýning á Minjasafninu; Iðnaðarbærinn Akureyri, þar sem gefur að líta 130 ljósmyndir úr sögu fjölmargra en þó langt í frá allra iðnfyrirtækja sem hér störfuðu og starfa sum enn. Á sýningunni eru margar litmyndir en starfsfólk Minjasafnsins hefur gert allar litmyndir safnsins stafrænar síðustu mánuði, að sögn Haraldar Þórs Egilssonar, safnstjóra.

Fátt gleður meira en gömul ljósmynd og næsta víst er að margir munu njóta og án efa hverfa langt aftur í tímann í huganum.

„Sýningunni er einnig ætlað að safna minningum og sögum þeirra sem unnu á þessum fjölbreyttu vinnustöðum. Í þeim eru ekki síður fólgin verðmæti sem vert er að safna. Þetta er sannarlega sýning þar sem bæði er hægt að hverfa aftur í tímann eða uppgötva Akureyri sem þú aldrei þekktir,“ segir safnstjórinn.

„Það voru nefnilega mikil sannindi í texta Kristjáns frá Djúpalæk sem hljómsveit Ingimars Eydal flutti svo eftirminnilega: Við höfum Lindu, við höfum KEA og heilsudrykkinn Thule, Amaro og SÍS …“ segir Haraldur.

Akureyri var að mörgu leyti sjálfbært samfélag, löngu áður en hugtakið varð Íslendingum tamt á tungu. Orðið finnst ekki á prenti í íslenskum fjölmiðli fyrr en árið 1990!

„Á Akureyri var hægt að fá allt sem þurfti fyrir heimilið og heimilisfólkið; fatnað, matvöru, hreinlætisvörur, gos og öl, húsgögn, málningu, innréttingar. Akureyringar voru stoltir af því að versla vörur sem framleiddar voru í bænum jafnvel af viðskiptavininum sjálfum. Ef ekki þá örugglega af einhverjum sem viðkomandi þekkti,“ segir Haraldur Þór.

Auk þess sem áður var getið má nefna að í Grófargili var framleidd næring fyrir líkama úr mjólk þar sem nú er framleidd andleg næring í Listagilinu, eins og safnstjórinn tekur til orða. „Þar sem nú eru verslunarmiðstöðvar voru framleiddar ullarvörur og málning, vörur sem sendar voru um land allt og út fyrir landsteinana.“

  • Þessi spennandi ljósmyndasýning verður opnuð í Minjasafninu í dag, fimmtudaginn 14. mars, klukkan 17.00 og opið verður til kl. 19.00. Allir eru velkomnir og aðgangur er ókeypis. 
  • Léttar veitingar verða í boði og enn léttari ávörp, sem Haraldur Þór safnstjóri og Hörður Geirsson safnvörður ljósmyndadeildar safnsins flytja.

Sýningar safnsins eru opnar daglega frá 13.00 - 16.00 og jafnframt verður opið á Iðnaðarsafninu á sama tíma næstu helgar þó unnið sé þar að breytingum.