Fara í efni
Héraðsskjalasafnið

Með hækkandi sól og aukinni veðurblíðu

SÖFNIN OKKAR – XXIX

Frá Héraðsskjalasafninu á Akureyri_ _ _

Akureyri.net heldur áfram að opna dyr safnanna í bænum lesendum til fróðleiks og skemmtunar. Það er gert vikulega, á fimmtudögum.

Það eru sjálfsagt margir sem lenda í því einhverntíman á æfi sinni að þurfa að meta sál sína til fjár og það trúlega oftar en einusinni, sumir margoft. Ef til vill ummyndast andlitið á ýmsum í stórt spurningarmerki með löngu – löngu – þankastriki fylgjandi á eftir, við lestur þessa upphafs. En þetta er engin misritun.

Þessi orð ritaði Dagrún Kristjánsdóttir (1921-1997) í eina af fjölmörgum blaðagreina sinna.

Dagrún Kristjánsdóttir fæddist að Ytri-Tjörnum í Öngulsstaðahreppi. Hún fór í Húsmæðraskólann á Laugalandi og lauk prófi frá húsmæðrakennarskóla í Stabekk í Noregi 1954. Dagrún kenndi matreiðslu, þvotta og ræstingu í húsmæðraskólum og gagnfræðaskólum og var vefnaðar- og handavinnukennari við Skálatúnsheimilið um árabil. Hún annaðist ráðskonu- og matreiðslustörf á sumrin við fjölda sjúkrahúsa og hótela árin 1945-1967 og var um tíma forstöðumaður Hrafnistu. Á árunum 1960-1970 var hún með nær vikulega húsmæðraþætti í útvarpi. Dagrún var ritstjóri tímaritsins Húsmóðirin og heimilið og ritaði fjölda blaðagreina um skóla- og uppeldismál og mataræði. Seinustu árin bjó Dagrún á Akureyri. Dagrún var ógift og barnlaus.

Á Héraðsskjalasafninu eru varðveitt margskonar gögn úr fórum Dagrúnar.

Eitt af því sem þar leynist er handrit að Húsmæðraþættinum, þann 18. október 1968.

Oft verður manni það á að segja að vaninn sé sterkur og jafnvel það að „svo megi illu venjast að gott þyki“ – en þá held ég að á þessu séu nokkrar undantekningar. Sumt er það sem við verðum að gera stöðugt, en venjumst aldrei – við verðum að lifa 7-8 mánaða vetur á hverju ári, en hver getur sagt að hann kunni því vel? Ég held að þeir séu fáir sem kjósa heldur frost og hríðar en sól og sunnan golu a.m.k. hlýtur þeim að vera hlýtt um hjartarætur sem það kjósa – en sé ástæðan sú, þá eru það nokkuð margir sem hafa frosið hjarta, því fleiri óska eftir hlýjunni.

Við finnum víst flest fyrir því að vorið með hækkandi sól og aukinni veðurblíðu, hefur einkennilega mýkjandi áhrif á hugarfarið, allt virðist vera mögulegt að framkvæma í geislum vermandi sólar, öll góð áform fá aukinn kraft – velviljinn sem svo oft blundar langtímum saman,- vaknar til lífsins – okkur virðist sem allir séu góðir – öllum sé hægt að fyrirgefa – jafnvel þeim sem grófast hafa gert á hluta okkar. Við sjáum allt í ljósi þeirrar birtu sem fram undan er – og sem að hefur gefið okkur lífið.

Þessi texti sem ritaður var um haust þegar styttast fór í veturinn á alveg jafn vel við þegar daginn tekur að lengja og landinn bíður óþreyjufullur eftir sumrinu.