Hver var Gudmann? Af hverju Gudmannshagi?
SÖFNIN OKKAR – XL
Frá Héraðsskjalasafninu á Akureyri_ _ _
Akureyri.net heldur áfram að opna dyr safnanna í bænum lesendum til fróðleiks og skemmtunar. Það er gert vikulega, á fimmtudögum.
Í mars 2014 kom nafnanefnd Akureyrarbæjar saman til þess að fjalla um nöfn á götum í nýju hverfi, Hagahverfi. Á fundinum varð til listi með 12 götunöfnum, sem nefndin lagði til að notuð yrðu í hverfinu. Eins og bæjarbúar þekkja eru göturnar kenndar við fólk og við val þeirra hafði nefndin það m.a. að leiðarljósi að um væri að ræða kunna látna Akureyringa, sem bæri heiður vegna starfa fyrir bæjarsamfélagið og hefði með frægð sinni og verkum auglýst nafn bæjarins. Skjal dagsins tengist einu þessara götunafna, þ.e. Gudmannshaga. En hver var Gudmann?
Gudmannshagi er kenndur við feðgana Jóhann Gottlieb Guðmundsson Gudmann (1785-1859) og Friðrik Carl Magnus Gudmann (1829-1879).
Jóhann Gudmann byrjaði að versla á Akureyri 1813 og óx verslun hans hratt. Hann átti verslanir víðar en höfuðstöðvarnar voru í Danmörku. Föðurætt Jóhanns var íslensk og móðurættin rússnesk en Gudmannsnafnið er komið frá Guðmundi Magnússyni föður hans. Guðmundur var snikkari og bjó í Kaupmannahöfn en var jafnan nefndur Magnus Gudmann. Jóhann bjó mestan hluta ævinnar í Kaupmannahöfn.
Með aldrinum kom Friðrik Gudmann inn í verslun föður síns og ráku þeir feðgar aðra aðalverslunina á Akureyri í marga áratugi en höfuðstöðvarnar voru í Kaupmannahöfn. Friðrik keypti fyrirtækið árið 1857. Eftir því sem best er vitað kom Friðrik aldrei til Akureyrar.
Í nóvember 1873 ritaði Friðrik gjafabréf (sem meðfylgjandi myndir eru af) en samkvæmt því afhendir hann Akureyringum 5000 ríkisdali er nota skuli til þess að koma á fót sjúkrahúsi eða fátækraheimili. Niðurstaðan var sjúkrahús og var hús fyrirverandi héraðslæknis keypt í því skyni. Friðrik gerði í gjafabréfinu þá kröfu að sjúkrahús yrði helgað minningu föður hans en þannig er nafn sjúkrahússins tilkomið, J. Gudmanns Minde. Akureyringar þekkja húsið sennilega bæði sem Gudmanns Minni eða Gamli spítali en það stendur við Aðalstræti 14.
Nánar má lesa um þá feðga og aðdraganda þess að Akureyringar fengu sjúkrahús að gjöf 1873 í bók Magnúsar Stefánssonar, Svipmyndir úr sögu sjúkrahúss í eina öld.