Fara í efni
Héraðsskjalasafnið

Fundur á Grund með Hannesi Hafstein

SÖFNIN OKKAR – XXXII

Frá Héraðsskjalasafninu á Akureyri_ _ _

Akureyri.net heldur áfram að opna dyr safnanna í bænum lesendum til fróðleiks og skemmtunar. Það er gert vikulega, á fimmtudögum.

 

Í aprílmánuði árið 1903 fékk Pétur Ólafsson á Hranastöðum svohljóðandi orðsendingu frá J.V. Havsteen:

Kæri vin!

Nú er ákveðið að fundur verður á Hrafnagili á fimmtudaginn þ. 16. þ.m. Kl. 1 e.h.d. Hannes Hafstein boðar hann og Kl. Jónsson verður með, Sra Jónas var hér í gær og boðar fundinn og lánar hús, fundarboðið fylgir og biðjum við yður að finna Sigurð á Merkigili og fleiri. Þetta má berast vel út. Sra Jónas gerir það líka og þér góði vinur okkar. Björn frændi biður að heilsa, þér …. Sra Jónas … og Ingi …, og góður tími á morgun.

Yðar vin

J.V.Havsteen

Ef marka má Norðurland 18. apríl 1903 var fundurinn einn af mörgum slíkum í Eyjafirði um þetta leyti. Árið áður hafði náðst ákveðinn áfangi til breytinga á stjórnarskrá Íslands en til þess að þær breytingar næðu fram að ganga var boðað til kosninga, sem fara skyldu fram í júní 1903. Fundurinn á Grund var því kosningafundur, samband Íslands og Danmerkur var meginefnið en mörg framfaramál voru einnig tekin fyrir.

Hannes Hafstein, sem fæddur var á Möðruvöllum í Hörgárdal 4. desember 1861, var einn af forustumönnum Heimastjórnarflokksins og náði kjöri sem þingmaður Eyfirðinga í kosningunum í júní. Hann var þingmaður Ísfirðinga 1900-1901 og Eyfirðinga 1903-1915.

Í október árið 1903 staðfesti konungur stjórnarskrárbreytingarnar og lög um heimastjórn. Breytingarnar tóku gildi 1. febrúar 1904 og Hannes Hafstein var skipaður fyrsti íslenski ráðherrann. Hann gegndi því embætti 1904-1909 og aftur 1912-1914. 

Eftir að Hannes lét af embætti ráðherra Íslands hið fyrra sinn varð hann bankastjóri við Íslandsbanka og aftur 1914, eftir síðara tímabilið sem ráðherra. Hann lét af starfi bankastjóra 1917 vegna vanheilsu. Hannes lést 13. desember 1922, 61 árs að aldri

J.V.Havsteen, sem sendi Pétri á Hranastöðum orðsendinguna, var konungkjörinn alþingismaður 1887-1893 og 1899-1915, fyrir Heimastjórnarflokkinn og Sambandsflokkinn. Hann var fæddur á Akureyri 14. ágúst 1839 og lést 3. maí 1915.

Starfsmenn Héraðsskjalasafnsins náðu ekki alveg að klóra sig fram úr textanum frá Jakob V. Havsteen en ef einhver getur ráðið þá gátu má gjarnan senda safninu lausnina á netfangið herak@herak.is.

Póstkort með mynd af Grund í Eyjafirði. Ekki er vitað hvenær kortið var gefið út.