Fara í efni
Heilsugæslan

Tolleringar og busavígsla

Mynd: Hængur Þorsteinsson

GAMLI SKÓLI – 19

  • Í þessum mánuði eru 120 ár síðan hið gamla, glæsilega skólahús Menntaskólans á Akureyri var tekið í notkun. Akureyri.net birtir af því tilefni einn kafla á dag út mánuðinn úr bókinni Lifandi húsið - saga gamla skólahúss Menntaskólans á Akureyri.

Á myndinni er tolleraður Jóhann Páll Árnason frá Dalvík, dux scholae 1958. Gleymst hafði að tollera hann haustið sem hann kom í skóla, enda voru tolleringar og busavígsla ekki fastur siður á þeim tíma. En Gamli skóli er fastur á sínum stað og í Hlíðarfjalli er snjór þótt komið sé fram á vor.

Þegar nýnemar voru teknir inn í lærða skóla Evrópu forðum daga, var venja að „lesa þeim pistilinn.“ Var pistillinn kristileg áminning þar sem brýnt var fyrir nýnemum að sýna guðsótta og góða siði. Siðaprédikunin breyttist seinna í prédikun í gamansömum stíl – eins konar leikrit. Hafa varðveist frásagnir um kímileg atvik tengd þessari leiknu prédikun, bæði frá Hólum og Skálholti þar sem prédikunin var nefnd Skrapar-Odds prédikun og var undanfari Herranætur Menntaskólans í Reykjavík og upphaf leikritunar á Íslandi.

Síðar var farið að tollera nýnema, eins og kallað var. Tolleringar í skólum mun vera séríslenskt fyrirbæri þótt þekkt sé að kasta mönnum í loft upp þegar sýna skal virðingu eða þakklæti. Tolleringar í Menntaskólanum á Akureyri er gömul hefð, tradisjón. Fyrstu skóladaga haustsins voru nýnemar gripnir þar sem til þeirra náðist í frímínútum og þeim kastað upp í loft með tilheyrandi hávaða og látum. Stúlkum í pilsum var hlíft. Engin skipuleg samtök voru um tolleringar framan af. Nemendur í efri bekkjum tóku sig saman þegar andinn blés þeim það í brjóst og réðust að nýnemum sem flýðu inn í skólastofur eða upp á heimavistir Gamla skóla eða jafnvel burt frá skólanum – en voru eltir uppi og gripnir. Urðu af þessu átök en sjaldan líkamsmeiðingar. Orðið tollering er komið af latnesku sögninni tollo eða tollare sem merkir að lyfta upp, hefja upp eða jafnvel lyfta til metorða.

Busavígsla í Portinu haustið 1987.

Þegar menntaskólum tók að fjölga í landinu á sjöunda áratug fyrri aldar, tóku nemendur nýju skólanna upp aðrar siðvenjur en verið höfðu í gömlu skólunum. Í stað þess að tollera fóru grímuklæddir nemendur að hella yfir nýnema vatni eða einhverri ólyfjan og nemendur voru reknir áfram eins og þrælar og jafnvel barðir. Þessi athöfn hlaut nafnið busavígsla. Eins og sögnin tollera er komið úr latínu á orðið busi einnig rætur að rekja til latínu. Algeng beygingarending sagna í latínu er - bus sem samkvæmt klassískri latínuhefð átti að bera fram bús en nýnemar báru endinguna gjarna bara fram stafrétt - bus. Fyrir þær sakir hlutu þeir uppnefnið busi eða busar sem í upphafi merkti byrjandi eða klaufi.

Haustið 1971 voru nýnemar í Menntaskólanum á Akureyri í fyrsta skipti leiddir út í Leikfimishús og lokaðir þar inni og síðan tíndir út einn og einn og tolleraðir. Síðar var farið að gefa nýnemum lýsi eða hafragraut ellegar súpugutl. Haustið 1976 voru nýnemar baðaðir í vatnskari vestan við Möðruvelli í kulda og norðanhríð og varð ekki öllum gott af. Árið 1981 klæddust efstubekkingar í MA í fyrsta skipti sérstökum búningum og báru hafragraut í hár sér og máluðu sig í framan til að skjóta busum skelk í bringu. Var busavígsla á þessum árum stundum rekin með töluverðum atgangi og átökum. Tolleringarnar, þessi athöfn sem upphaflega var til þess ætluð að hefja menn upp, vígja menn inn í heilagt samfélag lærdómslistanna, varð smám saman að skrípislátum.

  • Tolleringar og busavígsla er kafli úr bókinni Lifandi húsið - saga gamla skólahúss Menntaskólans á Akureyri sem Völuspá gaf út árið 2013. Höfundur bókarinnar er Tryggvi Gíslason, skólameistari frá 1972 til 2003.