Fara í efni
Heilsugæslan

Skólahljómsveitir á Sal Gamla skóla

GAMLI SKÓLI – 21

  • Í þessum mánuði eru 120 ár síðan hið gamla, glæsilega skólahús Menntaskólans á Akureyri var tekið í notkun. Akureyri.net hefur af því tilefni birt einn kafla á dag úr bókinni Lifandi húsið - saga gamla skólahúss Menntaskólans á Akureyri. Upp er runninn síðasti dagur októbermánaðar og hér með lýkur því skoðunarferð um þá góðu bók.

Skólahljómsveitir hafa leikið fyrir dansi á Sal „frá ómunatíð“. Á Sal voru haldnir dansleikir hálfsmánaðarlega, fullveldisfagnaður 1. desember, árshátíð á Jónsmessu Hólabiskups á föstu og að sjálfsögðu lokadansleikur skólans, dimissio, þegar verðandi stúdentar voru kvaddir. Auk þess á Sal haldnir málfundir og grímudansleikir þegar húsakynni voru fagurlega skreytt.

Teikning Odds Björnssonar rithöfundar sýnir Hljómsveit MA 1950 þar sem í voru: Ingvar Níelsson frá Norðfirði, klarínetta, Þorsteinn Ingi Jónsson frá Vatnsholti í Staðarsveit, trommur, Reynir Jónasson frá Helgastöðum í Reykjadal, harmonikka, Gissur Pétursson frá Akureyri, píanó.

Hljómsveit MA á Miðsal á dimissio 1958: Marinó Þorsteinsson frá Akureyri, trommur, Sigurður Jónsson frá Norðfirði, saxófón, Hængur Þorsteinsson frá Blönduósi, gítar, Sævar Vigfússon frá Akureyri, trompett, og Sveinn Gústafsson frá Siglufirði, píanó.

Mynd: Hængur Þorsteinsson

Guttabandið á Norðursal á dansleik 1958: Jón Sæmundur Sigurjónsson frá Siglufirði, klarínetta, Marinó Þorsteinsson frá Akureyri, trommur, Hannes Arason, trésmiður á Akureyri, bassa, Sighvatur Björgvinsson frá Ísafirði, saxófón, Guttormur Pétur Einarsson frá Vestmannaeyjum, básúna, Reynir Eyjólfsson frá Haugum í Skriðdal, gítar, Óskar Óskarsson frá Norðfirði, trompett, Ólafur Ragnars úr Njarðvík, píanó. 

  • Skólahljómsveitir á Sal er kafli úr bókinni Lifandi húsið - saga gamla skólahúss Menntaskólans á Akureyri sem Völuspá gaf út árið 2013. Höfundur bókarinnar er Tryggvi Gíslason, skólameistari frá 1972 til 2003.