Fara í efni
Háskólinn á Akureyri

Staðan í kjördæminu: Tvær konur, átta karlar

Af þingmönnum Norðausturkjördæmis eru tvær konur, Ingibjörg Ólöf Isaksen og Eyrún Ásbjörnsdóttir, og átta karlar. Einn karlanna, Ingvar Þórodsson, verður yngsti þingmaðurinn á komandi kjörtímabili, fæddur 1998.

Lokatölur úr Alþingiskosningunum sem fram fóru á laugardag voru tilkynntar í hádeginu í gær og staðfest hvaða frambjóðendur í Norðausturkjördæmi náðu inn á þing. Akureyri.net renndi yfir listann og tók út nokkur atriði.

Það verður seint sagt að Norðausturkjördæmi hafi stigið skref í átt að jafnrétti kynjanna með framboðslistum og þá einnig niðurstöðu alþingiskosninganna. Aðeins einn listi sem í boði var hafði konu í oddvitasæti og kynjahlutföll þingmanna kjördæmisins eru auðvitað eftir því. Sex listar voru með konu í 2. sæti, þar af aðeins einn af þeim þremur sem náðu bestu kosningunni.

  • Á kjörskrá í kjördæminu: 31.039
    Greidd atkvæði: 24.809 (79,9%)
    Auðir seðlar: 445 (1,8%)
    Ógild atkvæði: 30 (0,1%)
  • Tvær konur og átta karlar verða þingmenn Norðausturkjördæmis. Á síðasta þingi var skiptingin jöfn, fimm og fimm.
  • Konur verða 46% þingmanna, 29 af 63 þingmönnum. Konur eru 20% þingmanna Norðausturkjördæmis.
  • Endurnýjun er mikil á landsvísu. Alls koma 34 nýir þingmenn inn, eða um 54% þingheims. Endurnýjun í Norðausturkjördæmi er 50%, fimm af tíu þingmönnum koma nýir inn, einn þeirra reyndar með þingreynslu fyrir annan flokk. Það er Sigurjón Þórðarson sem sat á þingi 2003-2007.
  • Fjórir verðandi þingmenn kjördæmisins eru búsettir á Akureyri.
  • Ingvar Þóroddsson (C), 7. þingmaður kjördæmisins, verður yngsti þingmaðurinn á komandi þingi, fæddur í júní 1998. 
  • Átta þingmenn eru búsettir innan kjördæmisins, aðeins Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (Garðabær) og Sigurjón Þórðarson (F) (Sauðárkrókur) eru búsettir utan þess.
  • Allir þingmenn sem buðu sig fram til endurkjörs í kjördæminu náðu kjöri. Einn fráfarandi þingmanna kjördæmisins, Jakob Frímann Magnússon, skipti um flokk og kjördæmi og náði ekki kjöri.

Þingmenn sem náðu endurkjöri í kjördæminu

  • 1. Logi Einarsson (S), Akureyri
    - Hefur setið á þingi frá 2016 og varaþingmaður þar á undan.
  • 2. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M), Garðabæ
    - Þingmaður Norðausturkjördæmis frá 2017 (B-listi 2013-2017, M-listi frá 2017), áður í Reykjavíkurkjördæmi norður 2009-2013 fyrir B-lista.
  • 5. Ingibjörg Ólöf Isaksen (B), Akureyri
    - Hefur setið á þingi frá 2021.
  • 9. Njáll Trausti Friðbertsson (D), Akureyri
    - Hefur setið á þingi frá 2016.
  • 10. Þórarinn Ingi Pétursson (B), Grenivík
    - Hefur setið á þingi frá 2021, áður varaþingmaður.

Nýir þingmenn kjördæmisins

  • 3. Jens Garðar Helgason (D), Eskifirði
  • 4. Sigurjón Þórðarson (F), Sauðárkróki
    - hefur áður setið á þingi fyrir Frjálslynda flokkinn 2003-2007.
  • 6. Eydís Ásbjörnsdóttir (S), Eskifirði
  • 7. Ingvar Þóroddsson (C), Akureyri
  • 8. Þorgrímur Sigmundsson (M), Húsavík

Fráfarandi þingmenn kjördæmisins

  • Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (V)
    – Sóttist ekki eftir endurkjöri. Sat á þingi 2013-2024.
  • Jódís Skúladóttir (V)
    – Hlaut ekki brautargengi innan flokksins við val á lista og var því ekki í framboði. Sat á þingi 2021-2024.
  • Jakob Frímann Magnússon (F)
    – Var ekki boðið áframhaldandi sæti á lista Flokks fólksins, gekk til liðs við Miðflokkinn og verður varaþingmaður Sigríðar Andersen í Reykjavíkurkjördæmi norður. Sat á þingi 2021-2024.
  • Berglind Ósk Guðmundsdóttir (D)
    – Sóttist eftir 2. sæti á lista, en fékk ekki og var ekki í framboði. Sat á þingi 2021-2024.
  • Líneik Anna Sævarsdóttir (B)
    – Sóttist ekki eftir endurkjöri. Sat á þingi 2013-2017 og aftur 2017-2024. Varaþingmaður vorið 2017.

Við hvað starfar fólkið sem nú skiptir um vettvang og fer inn á þing?

  • Jens Garðar Helgason er aðstoðarframkvæmdastjóri fiskeldisfyrirtækisins Kaldvíkur
  • Sigurjón Þórðarson er framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Norðurlands vestra
  • Eydís Ásbjörnsdóttir er skólameistari Verkmenntaskóla Austurlands
  • Ingvar Þóroddsson er kennari við Menntaskólann á Akureyri
  • Þorgrímur Sigmundsson verktaki á Húsavík


Þingmenn Norðausturkjördæmis á komandi kjörtímabili.