Fara í efni
Handknattleikur

Verður Dagur kjörinn „uppáhald áhorfenda?“

Dagur Gautason fagnar einu marka sinna með Arendal í vetur. Mynd af vef félagsins.

Handboltamaðurinn Dagur Gautason, sem gekk til liðs við norska liðið ØIF Arendal frá KA fyrir leiktíðina, hefur staðið sig afar vel í vetur.

Á heimasíðu Arendal segir að Dagur búi yfir ótrúlegri orku og sýni jafnan mikla ástríðu í leikjum. „Hvort sem hann skorar eða einhver samherjanna fer aldrei á milli mála að það er Dagur sem fagnar hæst!“ segir þar og bent á að liðsfélagar Dags og áhorfendur komist ekki hjá því að smitast af jákvæðu viðhorfi hans. Hornamaðurinn snjalli sé í miklu uppáhaldi hjá stuðningsmönnum liðsins.

Nú stendur yfir kosning um titilinn Uppáhald áhorfenda í Noregi þar sem einn leikmaður úr hverju liði deildarinnar er í kjöri, og Dagur er fulltrúi Arendal! Almenningur kýs – með því að smella hér er hægt að taka þátt í kosningunni, sem lýkur eftir rúma viku, á miðnætti sunnudagskvöldið 21. apríl.

ØIF Arendal varð í þriðja sæti REMA 1000 deildarinnar, eins og efsta deild í Noregi kallast, á eftir Kolstad og Elverum. Dagur varð næst markahæstur í liðinu með 130 mörk í 28 leikjum og var fjórum sinnum valinn í lið mánaðarins í deildinni, síðast í mars.

Átta liða úrslitakeppni um norska meistaratitilinn hefst um helgina. Dagur og félagar mæta þar liði Nærbø sem varð í sjötta sæti deildarinnar.